Innlent

Góð veðurspá fyrir helgina

Prýðis ferða- og útvistarveður verður um hvítasunnuhelgina sem er fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins. Fullvíst má telja að tugir þúsunda verði á faraldsfæti. Lögreglan á Selfossi býst við mikilli umferð um sitt umdæmi enda mikil sumarbústaðabyggð þar auk þess sem margir eiga væntanlega leið í gegnum umdæmið. En það sem skiptir auðvitað miklu máli þegar ferðalög eru annars vegar er veðrið. Og hvar skyldi nú vera best að vera þessa helgi, með tilliti til veðurs? Svarið er einfalt; alls staðar. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands lítur út fyrir meinleysislegt veður um allt land um helgina, hægur vindur verður alls staðar. Þá er ekki spáð rigningu eða úrkomu almennt. Veðrið verður þó líklega best á morgun, sól og logn, þótt verið geti að súldarloft verði við ströndina, síst þó á suðausturhluta landsins. Á sunnudag og mánudag kólnar þó í veðri enda er þá spáð norðlægri átt og þá daga verður hitinn líklega 1 til 7 stig norðanlands en 5 til 10 stig sunnanlands. Ef veður ræður för þá verður gott að vera hvar sem er á landinu á ferð um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×