Erlent

Fjölmenn mótmæli í Úsbekistan

Þúsundir mótmæla eftir að meintir íslamskir öfgamenn slepptu hundruðum fanga í Úsbekistan í morgun. Vísbendingar eru um að mótmælendur séu þó ekki andstæðingar öfgamannanna meintu heldur beinist mótmælin að stjórnvöldum. Átökin hófust í morgun þegar að hópur uppreisnarmanna réðst inn í fangelsi og hjálpaði félögum sínum að brjótast út. Heimamenn segja að sextíu föngum hafi verið sleppt, CNN segir þá skipta hundruðum. Í kjölfarið hertók hópurinn lögreglustöðina í bænum Andijan í austurhluta landsins og heldur þar tíu lögreglumönnum í gíslingu. Tugir hermanna brunuðu inn í bæinn skömmu síðar en ekki er ljóst hver heldur um stjórnvölinn þar. Um tvö þúsund manns þustu út á götur Andijan og mótmæltu en enga lögreglumenn var að sjá. Byssugelt heyrist og rútum og vörubílum hefur verið lagt þvert yfir umferðaræðar að miðbænum og nokkrar byggingar standa þar í ljósum logum. Níu liggja í valnum eftir átök morgunsins, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu í höfuðborginni Tashkent. 39 eru sárir. Uppreisnarmennirnir eru múslímar, en Andijan er í Freghana-dalnum þar sem fjöldi múslíma er mikill og fátækt er almenn. Hermt er að dalurinn sé eitthvert viðkvæmasta múslímasvæði í Mið-Asíu. Ástæða mótmæla og uppreisnartilburða í einræðisríkinu Úsbekistan er sú að múslímar sem ekki sætta sig við ríkisútgáfu trúarinnar eru hnepptir í fangelsi og kúgaðir. Úsbekistan er bandamaður Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum og þar er að finna bandaríska herstöð, en ástand mannréttinda er sagt þar mjög bágt. Mótmælendur hafa látið til sín taka á götum borga undanfarið til að mótmæla því að tugir kaupsýslumanna hafi verið fangelsaðir, sakaðir um að fjármagna starf íslamskra öfgahópa. Eftir atburði morgunsins var útsendingum erlendra sjónvarpsstöðva hætt í Úsbekistan og í stað þeirra send út dagskrá innlendra skemmtistöðva.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×