Enski boltinn

Guéhi hetjan og Palace upp í fjórða sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Marc Guéhi tryggði Crystal Palace ákaflega sætan sigur þegar liðið sótti Fulham heim í dag.
Marc Guéhi tryggði Crystal Palace ákaflega sætan sigur þegar liðið sótti Fulham heim í dag. Getty/Ryan Pierse

Fyrirliðinn Marc Guéhi kom Crystal Palace til bjargar í Lundúnaslagnum við Fulham á Craven Cottage í dag, með sigurmarki í lokin. Þar með situr Palace í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Guéhi skoraði með skalla af nærstöng eftir hornspyrnu Yéremy Pino, þegar örfáar mínútur voru eftir af leiknum, og tryggði Palace 2-1 sigur.

Palace hafði áður komist yfir á 20. mínútu þegar Eddie Nketiah skoraði með góðu skoti eftir ljómandi gott spil og stoðsendingu Adam Wharton.

Heimamenn jöfnuðu hins vegar með frábæru utanfótarskoti Harry Wilson á 38. mínútu, eftir þríhyrningsspil við Raúl Jiménez.

Emile Smith Rowe virtist svo hafa komið Fulham yfir á 55. mínútu en markið var dæmt af vegna afskaplega tæprar rangstöðu.

Þess í stað fann Palace sigurmarkið og og komst þar með upp fyrir Chelsea og Everton í 4. sæti deildarinnar, með 26 stig eftir 15 leiki. 

Palace er stigi á undan Chelsea en fjórum stigum á eftir Aston Villa sem er í 3. sæti. Næsti leikur Palace er svo við liðið í 2. sæti, Manchester City, á heimavelli eftir viku en fimm stig skilja liðin að í toppbaráttunni fyrir þann leik. Fulham er í 15. sæti með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×