Fótbolti

Heimir fékk til­boð: „Pabbi vill ekki vera þar sem stuðnings­menn vilja hann ekki“

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson léttur í bragði á blaðamannafundi fyrir leikinn mikilvæga við Ungverja.
Heimir Hallgrímsson léttur í bragði á blaðamannafundi fyrir leikinn mikilvæga við Ungverja. EPA/Robert Hegedus

Hallgrímur Heimisson, sonur Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara Írlands, segir að írska knattspyrnusambandið hafi þegar í haust boðið Heimi nýjan samning. Hann fékk einnig að vita hvað fram fór á milli Heimis og Cristiano Ronaldo á fimmtudagskvöld.

Hallgrímur ræddi um þetta í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 í hádeginu í gær.

Heimir tók við írska landsliðinu sumarið 2024 og gerði samning sem gildir út undankeppni HM. Samningurinn gæti því runnið út í dag ef Írlandi tekst ekki að fylgja eftir sigrinum frækna á Portúgal með því að vinna Ungverjaland í Búdapest.

Eftir sigurinn gegn Portúgal hefur verið kallað eftir því að írska knattspyrnusambandið geri nýjan samning við Heimi, sem þá yrði treyst fyrir því stóra hlutverki að leiða Íra á EM á heimavelli 2028, og samkvæmt syni Heimis er klárlega áhugi á því hjá írska sambandinu.

„Hann þarf að taka ákvörðun og sambandið líka. Þeir eru búnir að bjóða honum annan samning, og gerðu það fyrir einhverju síðan. En eftir þennan tapleik á móti Armeníu [í september], þegar það varð hiti, þá ákvað pabbi bara að bíða með þetta. Hann vill ekki vera einhvers staðar þar sem stuðningsmenn vilja ekki hafa hann,“ sagði Hallgrímur í útvarpsþættinum.

Hann bætti við að það gæti breyst á einu augabragði í þessum bransa hvort menn væru álitnir svín eða kóngar, eins og hafi sýnt sig eftir sigurinn gegn Portúgal. Hallgrímur vonast til þess að Heimir verði áfram með Íra:

„Þetta er frábær staður ef vel gengur, með alla stuðningsmennina með sér í liði.“

Fékk kaldhæðnislegt hrós frá Ronaldo

Hallgrímur ræddi einnig stuttlega um samskipti Heimis og Ronaldo frá því á fimmtudaginn, eftir að hafa spurt pabba sinn út í þau, en Ronaldo óð beint til Heimis eftir rauða spjaldið sem hann fékk á fimmtudaginn – hans fyrsta á löngum landsliðsferli:

„Hann [Ronaldo] var að hrósa honum [Heimi] fyrir ummælin fyrir leik, og sagði hann hefði unnið sálfræðistríðið. Eitthvað þvíumlíkt. Þetta var væntanlega sagt í einhverri kaldhæðni,“ sagði Hallgrímur léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×