Tvö mörk í uppbótartíma í ó­trú­legum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matthijs de Ligt fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Tottenham.
Matthijs de Ligt fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Tottenham. getty/Zohaib Alam

Tottenham og Manchester United skildu jöfn, 2-2, í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildarinnar. Tvö mörk komu í uppbótartíma.

Sigurliðið hefði skotist upp í 2. sæti deildarinnar, allavega um stundarsakir. Þess í stað er Spurs í 3. sæti deildarinnar en United í því sjöunda. Bæði lið eru með átján stig.

Liðin áttu aðeins samtals eitt skot á markið í fyrri hálfleik og það fór inn. Á 32. mínútu gaf Amad Diallo fyrir frá hægri á Bryan Mbeumo, nýkjörinn leikmann október-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni, og hann skallaði boltann í netið.

Tottenham sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og Senne Lammens, markvörður United, varði tvisvar vel í upphafi hans, fyrst frá Cristian Romero og svo frá Joao Palhinha.

Brennan Johnson skoraði eftir klukkutíma en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Á 84. mínútu jafnaði varamaðurinn Tel svo fyrir Tottenham þegar athafnaði sig á skemmtilegan hátt inni í vítateig United og átti skot sem fór af Matthjis de Ligt og í netið.

Þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma átti Wilson Odebert skot sem Richarlison stýrði með höfðinu í netið og kom heimamönnum yfir.

Allt benti til þess að Tottenham myndi fara með sigur á hólmi og skjótast upp í 2. sæti deildarinnar en svo reyndist ekki vera. Á 96. mínútu skallaði De Ligt hornspyrnu Bruno Fernandes í netið og jafnaði í 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira