Fótbolti

Þjálfaragoðsögn látin taka pokann sinn: „Ég er undrandi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pia Sundhage stýrði Sviss til sigurs á Íslandi á EM kvenna í fótbolta síðasta sumar.
Pia Sundhage stýrði Sviss til sigurs á Íslandi á EM kvenna í fótbolta síðasta sumar. getty/Alexander Hassenstein

Pia Sundhage fær ekki nýjan samning sem þjálfari svissneska kvennalandsliðsins í fótbolta og sú sænska var beðin um að taka hatt sinn og staf umsvifalaust.

Sundhage tók við Sviss í fyrra og stýrði liðinu á EM á heimavelli síðasta sumar. Í riðlakeppninni mættu Svisslendingar Íslendingum og höfðu betur, 2-0. Sviss varð í 2. sæti A-riðils en féll úr leik fyrir Spáni í átta liða úrslitum, 2-0.

Svisslendingar unnu báða leiki sína í síðasta mánuði, gegn Kanadamönnum og Skotum, en það reyndust síðustu leikir liðsins undir stjórn Sundhages. 

Samningur hennar við svissneska knattspyrnusambandið verður ekki endurnýjaður og nýr þjálfari mun stýra Sviss í síðustu tveimur leikjum liðsins á þessu ári.

„Ég hefði viljað halda þessari vegferð áfram. Ég er undrandi á ákvörðun knattspyrnusambandsins en virði hana. Ég óska liðinu og svissneskum fótbolta alls hins besta,“ sagði Sundhage í tilkynningu.

Hin 65 ára Sundhage er þrautreyndur þjálfari en hún hefur einnig þjálfað landslið Bandaríkjanna, Svíþjóðar og Brasilíu. Undir stjórn hennar varð bandaríska liðið Ólympíumeistari 2008 og 2012.

Sundhage stýrði svissneska landsliðinu í 21 leik. Sjö þeirra unnust, þrír enduðu með jafntefli og ellefu töpuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×