Enski boltinn

Zaha segir á­sakanir Mateta ó­geðs­legar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Slest hefur upp á vinskapinn hjá Wilfried Zaha og Jean-Philippe Mateta.
Slest hefur upp á vinskapinn hjá Wilfried Zaha og Jean-Philippe Mateta. getty/Laurence Griffiths

Wilfried Zaha er langt frá því að vera sáttur með fyrrverandi samherja sinn hjá Crystal Palace, Jean-Philippe Mateta, og segir ummæli hans um hann vera ógeðsleg.

Mateta skoraði sitt fyrsta mark fyrir franska landsliðið þegar það gerði 2-2 jafntefli við það íslenska á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2026.

Í samtali við L'Equipe rifjaði Mateta upp að eftir að hann kom til Palace hefði hann talað um að hann myndi spila fyrir franska landsliðið. Samherjar hans hefðu hins vegar hlegið að því og nefndi Zaha sérstaklega í því samhengi.

Zaha segir þetta af og frá og í myndbandi á samfélagsmiðlum vísar hann ummælum Matetas til föðurhúsanna. 

„Afsakið er hausinn á mér er að rjúkandi. Ég verð að svara fyrir þetta Mateta mál því hann vill það ekki. Það sýnir mér ... þegar ég var að spila fyrir Palace og allir horfðu á mig og það var ljóst að þeir voru ekki ánægðir fyrir mína hönd,“ sagði Zaha.

„Einu skiptin sem ég er ástríðufullur er inni á vellinum. En ég myndi aldrei hrekkja neinn eða segja að einhver næði ekki þessu markmiði sínu eða neitt slíkt. Það er ógeðslegt að sjá einhvern sem ég hélt að væri vinur minn gera svona lagað.“

Zaha segir að einungis hafi verið um saklaust grín að ræða og skilur ekki af hverju Mateta tók hann út fyrir sviga. Hann segir þetta ástæðuna fyrir því að hann eigi ekki vini í fótboltanum og haldi sig út af fyrir sig.

Zaha er samningsbundinn Galatasaray en leikur sem lánsmaður með Charlotte í Bandaríkjunum.

Mateta kom upphaflega til Palace á láni frá Mainz 05 í ársbyrjun 2021. Enska félagið gekk svo frá kaupunum á honum ári seinna. Mateta hefur leikið 164 leiki fyrir Palace og skorað fimmtíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×