Bíó og sjónvarp

Bak við tjöld Víkurinnar: Háska­legar að­stæður og hættu­legur ferða­maður á hjara veraldar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tökurnar á Víkinni voru spennuþrungnar því það lá stormur í loftinu.
Tökurnar á Víkinni voru spennuþrungnar því það lá stormur í loftinu.

Tökur á spennumyndinni Víkinni eftir leikstjórann Braga Þór Hinriksson fóru fram í Fljótavík á Hornströndum, einum afskekktasta stað landsins. Tökulið, tökubúnaður og vistir voru ferjuð með bát og þurfti að flýta heimför vegna stormviðvörunar. 

Víkin er nýjasta mynd Braga Þórs Hinrikssonar, sem hefur áður gert myndirnar um algjöran Sveppa, Víti í Vestmannaeyjum (2018) og Birtu (2021), en hann er allt í senn leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi myndarinnar.

Tökur myndarinnar fóru fram á tveimur stöðum, aðeins á Suðurlandi en að megninu til í Fljótavík. Einungis er hægt að komast til Fljótavíkur á bát, í flugvél eða fótgangandi frá Aðalvík og er net- og símasamband slitrótt.

„Markmiðið var að fanga þessa einangrun í myndinni því það er eitthvað óþægilegt og ógnvekjandi við að vera varnarlaus utan þjónustusvæðis á þessu stórbrotna svæði eins og tökuliðið sjálft fékk að kenna á,“ sagði Bragi Þór um tökustaðinn.

Flugvél kemur við sögu í myndinni.

Tökulið og leikarar voru fluttir til Fljótavíkur með bát og ferjaður var tökubúnaður og vistir fyrir tæpa viku á tökustað. Vegna yfirvofandi stormviðvörunar þurfti tökuliðið að keppast við að ná inn tökum nær allan sólarhringinn áður en stormurinn skylli á. 

Heimför var flýtt vegn viðvörunar og tvísýnt var um hvort tökulið og leikarar kæmust til baka í bát vegna mikillar ölduhæðar. Engin bryggja er í Fljótavík og hírðust aðstandendur myndarinnar því í fjörunni meðan beðið var eftir bátnum. Blessunarlega heppnaðist heimförin vel og afraksturinn er spennumyndin Víkin. 

Hér fyrir neðan má sjá bak við tjöldin úr tökunum, harkið bak við bíótöfrana og dulinn ísjaka íslenskrar kvikmyndar:

Spennuþrungin heimsókn í bústaðinn

Víkin fjallar um óhamingjusöm hjónin Björn og Áslaugu sem þola varla að vera í návist hvors annars en fara þó reglulega saman í sumarbústð sinn á Hornströndum þar sem þau fá frið frá skarkala heimsins.

Margrét og Örn leika hjón.

Fríinu er snúið á hvolf þegar bandarískur ferðamaður bankar upp á og tekur þau í gíslingu í annarlegum tilgangi. Í kjölfarið hefst barátta upp á líf og dauða og gömul leyndarmál á milli hjónanna, sem ekki þola dagsljósið, koma upp á yfirborðið.

Örn Árnason, einn ástsælasti grínleikari þjóðarinnar, leikur aðalhlutverkið í Víkinni og sýnir á sér nýja hlið sem áhorfendur hafa ekki endilega séð áður. Á móti Erni leikur Margrét Ákadóttir, sem á langan leiklistarferil að baki en hefur einbeitt sér að kennslu síðustu ár. 

Leifur Sigurðarson er hálf-nýsjálenskur.

Leifur Sigurðarson leikur ferðamanninn sem umbyltir öllu en hann er hálf-nýsjálenskur og hefur getið sér gott orð fyrir leik í Mortal Engines (2018), Vikings: Valhalla (2022) og The Darkness (2024). Fjórði maður leikhópsins er Ellert Ingimundarson sem rekur Eldofninn og hefur ekki sést mikið á skjánum undanfarin ár.

Víkin verður frumsýnd í íslenskum bíóhúsum 30. október næstkomandi en hér fyrir neðan má sjá æsispennandi stiklu úr myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.