Íslenski boltinn

Lofar Heimi rauð­víns­flösku úr efstu hillu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Túfa og Heimir Guðjónsson. Sá fyrrnefndi var aðstoðarþjálfari Heimis hjá Val á sínum tíma og vonast eftir hjálp frá fyrrum samstarfsfélaga.
Túfa og Heimir Guðjónsson. Sá fyrrnefndi var aðstoðarþjálfari Heimis hjá Val á sínum tíma og vonast eftir hjálp frá fyrrum samstarfsfélaga.

„Það eru tveir leikir eftir,“ segir Srdjan Tufegdzic, Túfa, þjálfari Vals. Hann gefur ekki upp alla von í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en til að sú barátta lifi þarf Víkingur að tapa stigum fyrir FH í kvöld.

Túfa stýrði sínum mönnum í liði Vals til 3-2 sigurs á Stjörnunni í sex stiga baráttu um annað sæti deildarinnar. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik og þýðir sigurinn að Valur er gott sem öruggur með sæti í Sambandsdeildinni á næsta ári.

Valur er þá eina liðið sem hefur tölfræðilegan möguleika á því að ná toppliði Víkings. Víkingur er með 48 stig á toppnum en Valur með 44 stig í öðru sæti. Vinni Víkingur FH-inga í Víkinni í kvöld komast þeir sjö stigum fyrir ofan Val með sex stig í pottinum og verða því meistarar.

Túfa fór mikinn í viðtali eftir leik gærkvöldsins, líkt og greint var frá á Vísi í gær. Hann vísaði mikilli gagnrýni sem hann sjálfur og leikmenn liðsins hafa sætt í sumar til föðurhúsanna og benti á að Valur hefði barist um hvern einasta titil frá 1. janúar - auk þess að gera nokkuð vel í Evrópu. Mikil meiðsli lykilmanna hafi breytt dýnamíkinni.

Hann benti þá á áðurnefnda staðreynd, að mótinu sé ekki lokið. Það sé rými fyrir spennu í toppbaráttunni en til þess þurfa Valsmenn að treysta á hjálp frá FH-ingum.

„Ég skora á mjög góðan vin minn Heimi Guðjóns að ná góðum úrslitum í Víkinni á morgun og það verður send dýrasta rauðvínsflaska úr efstu hillu í Kaplakrika á mánudaginn ef hann nær góðum úrslitum á morgun,“ sagði Túfa í viðtali við Sýn Sport eftir leik í gær.

Víkingur og FH mætast klukkan 19:15 í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×