Sport

Guð­jón Ingi fagnaði í nótt á nýju brautarmeti

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Ingi Sigurðsson setti brautarmet í Heiðmörk þegar hann hljóp til sigurs í bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa.
Guðjón Ingi Sigurðsson setti brautarmet í Heiðmörk þegar hann hljóp til sigurs í bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa. SPORTMYNDIR/GUMMI STÓRI

Guðjón Ingi Sigurðsson fagnaði sigri í nótt í fimmta bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa í Heiðmörk, eftir keppni við Þórdísi Ólöfu Jónsdóttur um sigurinn. Hlaupið hófst klukkan níu á laugardagsmorgun.

Bakgarðshlaupin ganga út á að hlaupa 6,7 km hring á undir klukkutíma. Ræst er út á heila tímanum og sá vinnur sem stendur einn eftir. Í ár voru um 230 keppendur skráðir til leiks í Heiðmörk en einn af öðrum duttu þeir úr keppni þar til klukkan 19 í gærkvöld að aðeins þau Guðjón og Þórdís voru eftir.

Þau hlupu áfram inn í nóttina og lögðu saman af stað í hring númer 43 klukkan þrjú í nótt en Þórdís sneri svo við á meðan að Guðjón kláraði hringinn og fagnaði sigri.

Þau Guðjón og Þórdís höfðu þegar slegið brautarmetið um miðnætti, með því að klára 39 hringi, en það var Marlena Radziszewska sem bar sigur úr býtum í Heiðmörkinni í fyrra eftir að hafa hlaupið 38 hringi.

Garpur I. Elísabetarson og Tinna Miljevic stóðu vaktina fyrir áhorfendur og lesendur Vísis allt hlaupið og hér að neðan má lesa textalýsingu með myndböndum frá keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×