Víta­spyrnu í uppbótartíma bjargaði United fyrir horn

Siggeir Ævarsson skrifar
Bryan Mbeumo fagnar marki sínu í dag með tilþrifum, en þetta var fyrsta deildarmark United á tímabilinu sem var ekki sjálfsmark
Bryan Mbeumo fagnar marki sínu í dag með tilþrifum, en þetta var fyrsta deildarmark United á tímabilinu sem var ekki sjálfsmark EPA/ADAM VAUGHAN

Manchester United slapp heldur betur með skrekkinn í dag þegar liðið lagði nýliða Burnley 3-2 en sigurmarkið kom úr víti í uppbótartíma.

Heimamenn í United höfðu algjöra yfirburði í fyrri hálfleik en eins og svo oft áður gekk liðinu illa að koma boltanum í netið. Staðan 1-0 í hálfleik, eftir sjálfsmark Josh Cullen, en hefði hæglega getað verið 3-0, jafnvel 5-0 þar sem United óð í færum. Liði fékk til að mynda tvö algjör dauðafæri í uppbótartíma en inn vildi boltinn ekki.

Burnley jafnaði metin á 55. mínútu með marki úr sínu fyrsta færi í leiknum þar sem Lyle Foster kláraði færi í teignum af mikilli fagmennsku. United svaraði strax með góðu marki frá Bryan Mbeumo en gestirnir gáfust ekki upp og Lyle Foster skoraði aftur en markið dæmt af vegna rangstöðu. Atvikið var skoðað af nákvæmni í VAR en rangstaðan var afar tæp.

United hélt uppteknum hætti, að skora ekki mörk og gefa færi á sér og Jaidon Anthony nýtti sér það og jafnaði metin í 2-2.

Stuðningsmenn United halda í vonina um að það séu bjartari tímar framundanEPA/ADAM VAUGHAN

Allt leit út fyrir að það yrði úrslit leiksins. United hélt áfram að sækja og varamaðurinn Benjamin Sesko fékk tvö góð skallafæri en brást bogalistin í bæði skiptin. 

United, og mögulega Ruben Amorim líka, fengu svo líflínu í uppbótartíma þegar Amad Diallo var togaður niður í teignum. Eftir skoðun í VAR var vítið réttilega dæmt og Bruno fór á punktinn en hann brenndi eftirminnilega af víti í síðasta deildarleik.

Nú skoraði Bruno af öryggi og tryggði United fyrsta sigur sinn í deildinni í vetur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira