Fótbolti

Ron­aldo svaraði Heimi og sagði hann sniðugan

Aron Guðmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson vonar að lærisveinar sínir hjá írska landsliðinu nái að stríða Ronaldo og Portúgal í undankeppni HM í kvöld
Heimir Hallgrímsson vonar að lærisveinar sínir hjá írska landsliðinu nái að stríða Ronaldo og Portúgal í undankeppni HM í kvöld Vísir/Samsett

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo segir Heimi Hallgrímsson, landsliðsþjálfara Írlands, vera sniðugan sökum ummæla sem Eyjamaðurinn lét falla um Ronaldo eftir fyrri leik Írlands og Portúgals í undankeppni HM. Liðin mætast öðru sinni í kvöld.

Leikur kvöldsins gæti ráðið því hvort HM draumur Íra lifi eða ekki. Portúgal situr á toppi riðilsins á meðan að Írar eru í þriðja sæti og í harðri baráttu við Ungverja um umspilssæti. Ungverjar mæta Armennum í sama riðli í dag og munu Írar þá sjá hversu mörg stig þeir þurfa að sækja fyrir sinn leik gegn Portúgal. 

Portúgal vann fyrri leikinn við Íra í Lissabon 1-0 og eftir þann leik sagði Heimir að Ronaldo hefði ekki aðeins stjórnað dómara leiksins, heldur líka öllu fólkinu í stúkunni sem hafi bara „stutt hans hegðun og dómarinn bara spilað með.“

Um­mæli Heimis voru síðan borin undir Ron­aldo.

„Ég tel að hann sé með þessu bara að reyna að hafa áhrif á dómarann í komandi leik. Án efa. Hann er sniðugur maður,“ sagði Ron­aldo sem telur sig þekkja sál­fræði­hernað þjálfara í að­draganda leikja.

„Ég hef verið lengi í fót­bolta og tel mig þekkja það þegar þjálfari telur sig geta búið til pressu eða tekið pressu af leik­mönnum sínum. Þetta er skiljan­legt í þeirra stöðu því ef þeir tapa gegn okkur eru þeir úr leik. Svo þeir reyna að hafa áhrif á það sem þeir geta fyrir leik.“

Ron­aldo býst við erfiðum leik gegn Írum líkt og var raunin í fyrri leik liðanna í Lissabon þar sem læri­sveinar Heimis voru þéttir til baka.

„Þeir eiga mögu­leika. Eru með gott lið. En við erum undir þetta búnir. Ég tel að við munum eiga góðan leik og vinna.“

Leikur Ír­lands og Portúgals í undan­keppni HM verður sýndur í beinni út­sendingu á Sýn Sport Viaplay klukkan korter í átta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×