Fótbolti

Stjóri Ísaks Berg­manns vakti at­hygli fyrir klæða­burð sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Kwasniok fagnar sigurmarki Kölnarliðsins í blálokin á leik liðsns í fyrstu umferð þýsku deildarinnar. 
Lukas Kwasniok fagnar sigurmarki Kölnarliðsins í blálokin á leik liðsns í fyrstu umferð þýsku deildarinnar.  Getty/Alex Grimm

Knattspyrnustjóri Kölnar fer aðeins aðrar leiðir í klæðaburði á hliðarlínunni í þýsku Bundesligunni.

Íslenski landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson er kominn í nýtt félag í þýska boltanum og þar spilar hann fyrir pólska knattspyrnustjórann Lukas Kwasniok hjá Köln.

Kölnarmenn hafa byrjað tímabilið vel, komust áfram í bikarnum þökk sé sigurmarki Ísaks og unnu dramatískan 1-0 sigur í fyrstu umferðinni um helgina

Hinn 44 ára gamli Kwasniok er nýr hjá Kölnarliðinu alveg eins og Ísak Bergmann.

Kwasniok var áður knattspyrnustjóri Paderborn í fjögur ár en var ráðinn hjá Köln í sumar. Hann stýrði Paderborn í þýsku b-deildinni í fyrra og vissi því alveg hvað bjó í Ísaki Bergmann var að gera flotta hluti hjá Fortuna Düsseldorf.

Klæðaburður Kwasniok í sigrinum á Mainz um helgina vakti athygli.

Kappinn mætti í gallabuxum og svo í keppnistreyju Kölnar. Liðið lék í útivallarbúningum sínum en hann var sjálfur í heimabúningnum á hliðarlínunni.

Kwasniok var spurður út í treyjuna. 

„Ég sá kynninguna á treyjunni og fékk bara gæsahúð. Eftir það var ég búinn að ákveða mig og ef ég mætti þá myndi ég fara í hana. Ég vildi sýna félaginu að ég gef mig allan í þetta verkefni. Ég mun líka klæðast þessari treyju með stolti,“ sagði Lukas Kwasniok.

„Það spillti ekki fyrir að með því að vera með rauðar og hvítar rendur á treyjunni þinni þá lítur þú fyrir að vera grennri. Miðað við það sem ég sá í sjónvarpinu eftir leik þá gekk það ekki alveg upp hjá mér,“ sagði Kwasniok léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×