Innlent

Ó­teljandi skiptin sem lög­regla hefur þurft að vísa sömu mönnum út

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti 65 málum á vaktinni í gærkvöldi og nótt og neyddist meðal annars til þess, enn eina ferðina, að vísa tveimur mönnum úr sameign fjölbýlishúss.

Þau skipti eru ekki lengur teljandi sem lögregla hefur verið kölluð til vegna umræddra manna, að því er segir í yfirliti yfir verkefni næturinnar.

Tveimur var vísað út af veitingastað í miðborginni vegna fíkniefnaneyslu. Þá aðstoðaði lögregla strætóbílstjóra vegna farþega sem var ölvaður. Lögreglu bárust einnig tvær tilkynningar um heimilisofbeldi og var einn handtekinn í tengslum við annað málið.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, meðal annars einn sem gerðist sekur um „svigakstur“ og um að miða ökuhraða ekki við aðstæður. Sá var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða vegna punktastöðu.

Lögregla hafði einnig afskipti af mönnum „vegna ágreinings sem hafði gengið heldur langt“. Stillti hún til friðar. Þá voru fjögur ungmenni færð á lögreglustöð vegna gruns um innbrot og haft samband við foreldra og barnavernd.

Tilkynnt var um eitt innbrot á heimili og annað í fyrirtæki. Þá barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir, sem reyndust alls ekkert grunsamlegar þegar betur var að gáð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×