Þetta var á áratug Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, þorskastríða og handritamálsins. Kristján Eldjárn sat í forsetastólnum og íslenskar konur í þúsundavís lögðu niður störf á Kvennafrídeginum í október árið 1975.
Sjoppur voru á hverju götuhorni, Breiðholtið var enn í byggingu og neðri hluti Laugavegarins var ennþá umferðargata. Lögreglustöðin við Hlemm var tiltölulega nýbyggð og Hallgrímskirkja var enn í byggingu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í miðborginni og víðar á þessum árum og eru einstök heimild um veröld sem var. Myndirnar eru í eigu Hilmars Snorrasonar, fyrrum skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna og áhugaljósmyndara með meiru.
„Ég elska að taka myndir af mannlífi og andlitum auk skipamynda, og það er af nógu að taka í filmusafninu,“ segir Hilmar í samtali við Vísi.
Undanfarin misseri hefur Hilmar staðið í tiltekt og skönnun á gömlum filmum og þá hefur eitt og annað komið í ljós.
„Ég er enn iðinn með myndavélina og á yfir þrjú þúsund stafrænar myndir. Að vísu hætti ég að taka mannlífsmyndir eftir að ég hóf störf á sjó og eignaðist börn en þá var myndavélinni beitt í aðra átt.“


















