Lífið

„Ég skal verða mamma einn daginn“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Alda er mikill kattavinur og á fjögurra ára læðu sem heitir Aría Eldey.
Alda er mikill kattavinur og á fjögurra ára læðu sem heitir Aría Eldey. Aðsend

Alda Björk Guðmundsdóttir er 33 ára kona á einhverfurófi sem á sér þann draum heitastan að verða móðir. Undanfarin þrjú ár hefur hún reglulega gengist undir frjósemismeðferðir í von um að draumurinn rætist en án árangurs. Hún er staðráðin í að halda áfram og fer sínar eigin leiðir til að fjármagna meðferðirnar. 

„Mig hefur dreymt um að verða mamma síðan ég var unglingur,“ segir Alda í samtali við Vísi.

Auk þess að vera á einhverfurófi er hún einnig greind með ADHD og væga þroskaröskun.

„Ég er oft misskilin út af því. Fólk er fljótt að dæma. En ég er fullfær um að verða móðir, og ég er með gott stuðningsnet,“ segir hún og bætir við að foreldrar hennar og allir í kringum hana styðji hana heilshugar í þessu öllu saman.

Fann á sér að tíminn væri komin

Fyrir rúmlega átta árum byrjaði Alda að velta fyrir sér þeim möguleika að eignast barn ein, með aðstoð tækninnar.

„Ég hef aldrei verið í sambandi og mig hefur aldrei langað að eiga maka. En svo komst ég að því að það væri í boði á Íslandi að eignast barn með gjafasæði. Þá byrjaði ég að kynna mér það betur og fræða mig. Ég bjó heima á þessum tíma, var með skuldir og var engan veginn tilbúin. Þá tóku við nokkur ár þar sem ég hugsaði þetta vel og vandlega.“

Alda fór að kynna sér tæknisæðingu árið 2016 en það liðu nokkur ár þar til hún lét til skarar skríða.Aðsend

Árið 2020 var Alda flutt að heiman, var orðin skuldlaus og fann á sér að núna væri rétti tíminn. Hún var tilbúin í ferlið. Í febrúar 2021 fór hún síðan í fyrsta viðtalið hjá Livio.

Ferlið átti hins vegar eftir að reynast langt og erfitt, og það stendur enn yfir. Í upphafi þurfti heimilislæknirinn hennar að veita Livio samþykki fyrir meðferðinni, þar sem að Alda er greind með fyrrnefndar raskanir.

Þvínæst tóku við þrjár tæknisæðingar, sem skiluðu ekki árangri. Í ágúst á seinasta ári gekkst Alda síðan undir glasameðferð sem tók á líkamlega og andlega.

Alda hefur frá upphafi haldið úti síðu á Instagram, Ein að eignast barn. Þar hefur hún reglulega birt stöðuuppfærslur og myndir og greint frá ferlinu.

Í nóvember á seinasta ári leit út fyrir að draumurinn hefði ræst; Alda tók þungunarpróf sem reyndist jákvætt.

„Ég var gjörsamlega í skýjunum að vera loksins orðin ólétt, og það rétt fyrir jól, eins og mig hafði dreymt um svo lengi. Ég taldi niður dagana í snemmsónarinn.“

Alda hefur verið iðin við að sýna frá meðferðarferlinu á Instagram. Þessi mynd var tekin þegar fyrstu IVF uppsetningunni lauk.Aðsend

Gleðin breyttist hins vegar í sorg. Meðgangan endaði í fyrsta fósturmissinum hjá Öldu.

„Fyrst grét ég endalaust, keyrði í þögn og vildi enga tónlist. Síðan komu léttari dagar og ég fór aftur að syngja með lögum og hlæja. En það var samt alltaf þessi sorg,“ segir hún.

Hún birti einlæga færslu á Instagram síðunni sinni um þetta leyti þar sem hún lýsti tilfinningarússíbananum sem hún var að ganga í gegnum:

„Af hverju ég? Mig dreymir um lítið kríli næsta ár. Ég reyni að ýta burt depurðinni og vera spennt, en stærsta jólagjöfin var tekin frá mér og ekkert mun koma í staðinn fyrir hana.“

Ekki af baki dottin

Síðan þá hefur Alda gengist undir tvær uppsetningar með frystum fósturvísum, en án árangurs. Sú seinasta endaði í öðrum fósturmissi.

Hún stefnir nú á að fara í fjórðu uppsetningu á þýðnum fósturvísi. Meðferðunum fylgir hins vegar mikill kostnaður. Hver uppsetning kostar 250 þúsund krónur.

Alda er hins vegar staðráðin í að láta drauminn rætast. Eftir hverja uppsetningu hefur hún fagnað með því að kaupa eitthvað tengt barnatengt. Eftir seinustu uppsetningu keypti hún fallega dagbók sem notuð er til að skrásetja fyrstu fimm árin í ævi barnsins.

„Ég er bara að vonast eftir að geta farið reglulega í meðferðir þar til þetta tekst,“ segir hún.

Býður upp á kisupössun

En hún deyr ekki ráðalaus.

„Ég hef í rauninni verið að reyna safna reglulega,“ segir hún.

Í gegnum árin hefur Alda þróað með sér kunnáttu í myndvinnslu og hefur nýtt sér það til búa til falleg prentverk sem hún selur. Hún er með síðu á Instagram sem heitir abg prent þar sem hægt er að panta sérútbúin fæðingarspjöld, mánaðarspjöld, myndahjarta, bókstaf með nafni og fæðingardegi, stjörnumerki og fleira. Hún notar síðan ágóðann af sölunni til að borga fyrri meðferðir eða safna fyrir næstu meðferðum.

Alda er mikill kattavinur og á sjálf fjögurra ára læðu sem heitir Aría Eldey. Í fyrrasumar fékk hún þá hugmynd að fjármagna meðferðirnar með því að bjóða upp á kattapössun.

„Ég prófaði að taka að mér að passa fyrir aðra með að kíkja daglega á kisuna þeirra, eða kisurnar. Ég hef núna passað fyrir margar fjölskyldur og þetta hjálpaði mér mikið með að safna fyrir glasameðferðinni í fyrra. Ég tók myndir daglega og sendi viðkomandi eiganda og allir voru mjög ánægðir. Það var mjög gaman að kynnast allskonar kisum.“

Alda ætlar ekki að gefast upp og er staðráðin í að verða móðir einn daginn.Aðsend

Þakkar fyrir hverja pöntun

Alda ætlar að halda áfram að bjóða upp á kattapössun í sumar, í hverfi 102 og 113 á höfuðborgarsvæðinu og allstaðar þar á milli. Hún kíkir þá daglega í heimahús, fyllir á mat og vatn, tæmir kattasandskassann. Og kisan eða kisurnar eru á svæðinu munu þær að sjálfsögðu fá kúr, leik og athygli. Á lokadeginum reynir Alda síðan að sópa eða ryksuga yfir heimilið.

„Ég er þakklát fyrir hverja pöntun svo ég geti vonandi safnað uppí næstu uppsetningu. Allur peningur sem ég hef safnað með að selja prent eða passa kisur hefur farið inn á sérbók. Ég nota afgangsaurana mína eftir reikninga til að borga niður skuldir eftir fyrri meðferðir. 

Ég myndi aldrei biðja neinn um að styrkja mig. Ég vil bara vinna mér inn pening með að selja og passa, en ekki fá það uppí hendurnar. Af því ég er ekki í neyð, þannig séð. Eins og staðan er núna þá er ég komin með sirka einn þriðja af næstu uppsetningu,“ segir hún.

Hún segir síðustu ár hafa tekið virkilega á. Hún reynir að hlúa vel að sjálfri sér á milli meðferða og er staðráðin í að missa ekki vonina.

„Það er bara áfram gakk núna. Ég skal verða mamma einn daginn.”


Fleiri fréttir

Sjá meira


×