Lífið

Missti allar tærnar þrjá­tíu árum eftir að konan skar undan honum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
John Wayne Bobbitt árið 2008, þá á fullu í klámmyndabransanum.
John Wayne Bobbitt árið 2008, þá á fullu í klámmyndabransanum. Getty

Bandaríkjamaðurinn John Wayne Bobbitt á í erfiðleikum með að halda útlimum sínum. Fyrir þrjátíu árum skar fyrrverandi eiginkona hans getnaðarlim hans af honum á meðan hann svaf. Nú, þrjátíu árum síðar, hefur hann misst allar tærnar af völdum fjöltaugakvilla sem á rætur sínar að rekja til mengaðs vatns á bandarískri herstöð.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umfjöllun New York Post. 

Bobbitt komst fyrst á forsíður blaðanna árið 1993 þegar þáverandi eiginkona hans Lorena Bobbitt skar af honum getnaðarliminn á meðan Bobbitt svaf í íbúð þeirra í Virginíu-ríki. Hún hefur haldið því staðfastlega fram að Bobbitt hafi ítrekað beitt hana kynferðisofbeldi á meðan sambandi þeirra stóð.

Að verkinu afloknu flúði Lorena í hús yfirmanns síns. Hún var ákærð í framhaldinu og átti yfir höfði sér tuttugu ára fangelsisvist. Svo fór að Lorena var talin skorta geðhæfi í málinu og því sýknuð. Kynferðisbrotamál á hendur Bobbitt var látið niður falla síðar árið 1993. 

John Wayne Bobbitt gekkst undir aðgerð þar sem læknum tókst að græða getnaðarlim hans aftur á hann. Limurinn hefur síðan þá virkað sem skyldi, að sögn Bobbitt. Svo vel raunar að í framhaldinu lagði hann klámleik fyrir sig og hélt því fram árið 2013 að hann hefði sofið hjá allt að sjötíu konum frá því að fólskuleg árásin átti sér stað. Sama ár var hann nærri því að missa annan fótinn eftir að hafa stigið á skítugan nagla á vinnusvæði. 

Útlimasaga Bobbitts var hins vegar ekki öll. Hann greindist nýlega með taugakvilla sem talin er stafa af menguðu vatni í Lejeune herstöðinni í Norður Karólínu. Þar sinnti Bobbitt herskyldu sinni að hluta. Taugaskaðinn var orðinn svo mikill á síðasta ári að fjarlægja þurfti allar tær Bobbitts.

Í viðtölum síðar meir hefur Bobbitt sagt frá því að dvöl hans í Lejeune herstöðinni hafi skilið eftir sig andlegt tjón, ekki síður en líkamlegt. Það hafi mögulega stuðlað að stormasömu sambandi hans og fyrrverandi eiginkonunni Lorenu. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×