Innlent

Lands­bankinn ekki seldur á þessu kjör­tíma­bili

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill sjá að aðrir en ríkisbanki eigi tryggingarfélagið TM.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill sjá að aðrir en ríkisbanki eigi tryggingarfélagið TM. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra sér ekki fram á að hlutir í Landsbankanum verði seldir á þessu kjörtímabili en það gæti þó orðið á því næsta. Þá hugnast honum ágætlega að Landsbankinn losi sig við tryggingarfélagið TM.

Greint var frá því fyrir helgina að stjórn Bankasýslu ríkisins ætli að skipta út öllu bankaráði Landsbankans á aðalfundi bankans næsta föstudag. 

Þá birti Bankasýslan jafnframt skýrslu vegna skuldbindandi tilboðs Landsbankans í allt hlutaféð í tryggingarfélaginu TM. Þar kom fram að tilboðið fari gegn eig­enda­stefnu rík­is­ins og að upplýsingagjöf hafi ekki verið í samræmi við ákvæði samnings um almenn og sértæk markmið í rekstri bankans. Bankaráð Landsbankans hefur hafnað þessu.

„Kaupin á TM eru í andstöðu við þá stefnu sem að við höfum viljað fylgja og skrifað út í eigendastefnunni að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði. Þannig að þetta gengur þvert gegn því. Ákvörðun Bankasýslunnar kemur ekki til uppáskriftar hjá mér eða ráðherra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en ég get sagt svo sem að það kemur ekki að öllu leyti á óvart að Bankasýslan, eftir það sem er á undan er gengið, hafi séð ástæðu til að gera breytingar. Það minnir líka ágætlega á hvar hlutabréf eigandans eru vistuð. Þau eru vistuðu í Bankasýslunni og það skiptir máli að farið sé að eigendastefnunni.

Aðspurður um hvort það komi til greina að selja Landsbankann segir Bjarni það allavega ekki verða gert í bráð. 

„Við erum ekkert að ræða um það. Ég sé ekki fram á að hlutir í Landsbankanum verði seldir á þessu kjörtímabili. Í eigendastefnunni er hins vegar sú langtímasýn teiknuð upp að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu á Landsbankanum og ég er sammála því til lengri tíma litið. Næsta verkefni er að klára að losa um eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og ég held að það sé nóg verkefni fyrir þetta kjörtímabil. Svo kemur næsta kjörtímabil eftir kosningar.“

Þá ætlar Bankasýsla ríkisins að funda með nýju bankaráði Landsbankans að loknum aðalfundi bankans. Á fundinum ætlar Bankasýslan að leggja áherslu á að ráðið meti kaup bankans á TM og leiti leiða til þess að losna við tryggingafélagið. Bjarni líst vel á það. 

„Allt sem að dregur úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði er eitthvað sem að mér hugnast ágætlega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×