Innlent

Bílunum stútað á meðan þau skruppu út að borða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hrafnhildur Alice , Hlynur og annar bílanna sem gerð voru skemmdarverk á í gær.
Hrafnhildur Alice , Hlynur og annar bílanna sem gerð voru skemmdarverk á í gær. Vísir

Á meðan Hlynur og Hrafnhildur Alice skruppu að fá sér að borða í gærkvöldi voru framin skemmdarverk á bílum þeirra. Rúður voru brotnar með einhverskonar barefli og lofti hleypt úr dekkjum bílanna. 

Hlynur og Hrafnhildur búa í Hraunbæ í Árbænum og leggja bílum sínum tveimur alltaf í bílastæðaporti við fjölbýlishúsið sem þau búa í. Um sexleytið í gær fóru þau úr húsi til þess að fá sér að borða. Þau sneru aftur heim tveimur tímum síðar, og svo öðrum tveimur tímum eftir það fóru þau aftur úr húsi til þess að fara í sjoppu. 

„Þá sáum við að bílarnir voru bara í hakki. Ég var nýbúin að kaupa glæný dekk og það var búið að leysa loftið úr þeim. Svo er eins og það hafi einhver tekið hafnaboltakylfu og lamið í bílinn. Líka í Tesluna sem er bílaleigubíll. Ég er nýbúin að borga fjögurhundruð þúsund til að fá Tesluna á leigu. Þannig að ég er ekki alveg að fýla það að þurfa að fara að borga aftur kaskóið en við vitum alveg hver gerði þetta,“ segir Hrafnhildur í samtali við fréttastofu. 

Það virðist hafa verið barið í framrúðuna af miklu afli.Vísir

Í deilum við barnsmóður

Þau telja að einstaklingar tengdir barnsmóður Hlyns beri ábyrgð á verknaðinum. Þau hafi áður fengið hótanir frá þeim, meðal annars um að kasta eigi sprengju inn í íbúð þeirra. 

„Eina ástæðan af hverju við þurfum að vera í samskiptum við þau er að þau eiga börn saman. En hún hefur ekki leyft börnunum að koma hingað í þrjú eða fjögur ár,“ segir Hrafnhildur. 

Búið var að brjóta afturrúðuna á öðrum bílnum.Vísir

Grunar engan annan

Hún kveðst hafa náð sambandi við barnsmóðurina í morgun eftir fjölmargar símhringingar. Hún þverneitar þó að hafa framið verknaðinn. 

„Við erum bara venjulegt fólk, það er enginn annar sem gæti hafa gert þetta. Svo sáum við bílinn hennar keyra hérna framhjá í gær,“ segir Hrafnhildur. 

Einnig má finna skemmdir á fleiri stöðum á bílunum.Vísir

Þau Hrafnhildur og Hlynur er ekki skemmt yfir skemmdarverkunum og ætla að tilkynna málið til lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×