Lífið

Hleypur illu blóði í ná­grannana

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Taylor Swift á sviði í Singapúr.
Taylor Swift á sviði í Singapúr. Ashok Kumar/TAS24/Getty

Niðurgreiðslur vegna Eras tónleikaraðar bandarísku tónleikakonunnar Taylor Swift í Singapúr í þessari viku hafa hleypt illu blóði í nágranna borgarríkisins sem fá söngkonuna ekki í heimsókn.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að stjórnvöld í Singapúr hafi greitt háar fjárhæðir til þess að tryggja að allir tónleikar söngkonunnar í þessum heimshluta færu fram í Singapúr.

Fram kemur að upphaflega hafi verið greint frá því að upphæðin næmi rúmum 24 milljónum bandaríkjadala eða rúma þrjá milljarða íslenskra króna. Yfirvöld í Singapúr hafna því þó og er fullyrt í þarlendum miðlum að upphæðin nemi ekki nema tveimur milljónum bandaríkjadala eða rúmum 280 milljónum íslenskra króna.

Svo virðist vera sem Singapúr hafi verið eina ríkið sem tilbúið var til að niðurgreiða komu söngkonunnar ef marka má viðbrögð nágrannanna. Fram kemur í frétt BBC að yfirvöld í Taílandi hafi harðlega gagnrýnt yfirvöld í Singapúr.

Hið sama hafi verið uppi á teningnum á Filippseyjum. Bent er á að rúmlega sjöhundruð milljón manns búi í suðausturhluta Asíu og skandall sé að söngkonan muni einungis koma fram í Singapúr en hvergi annars staðar.

Bent er á að Singapúr sé langdýrasta ríkið í heimshlutanum. Ljóst er þó að þetta hefur lítil áhrif á eftirspurn eftir miðum á tónleikana en BBC segir að þúsundir aðdáenda flykkist til Singapúr, meðal annars frá Kína. Þar verður söngkonan ekki með neina tónleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×