Menning

Ráðin fram­kvæmda­stjóri Ís­lensku kvik­mynda- og sjón­varp­sakademíunnar

Árni Sæberg skrifar
Ingibjörg Gréta Gísladóttir.
Ingibjörg Gréta Gísladóttir.

Ingibjörg Gréta Gísladóttir hefur verið verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Hún hefur þegar hafið störf.

Í fréttatilkynningu um ráðninguna segir að Ingibjörg Gréta hafi yfirgripsmikla reynslu af störfum sem snúa að rekstri og stefnumótun ásamt viðburða- og verkefnastjórnun. 

Hún sé með MS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlafræði auk þess að vera með BFA í leiklist frá Listaháskólanum (Leiklistarskóla Íslands). Hún hafi áratuga reynslu af viðburða- og verkefnastjórnun, hafi stýrt sýningum, hátíðum og viðburðum hérlendis sem erlendis auk almannatengsla og markaðsmála þeim tengdum.

„Eftir heildstætt mat var Ingibjörg Gréta valin til að gegna starfi framkvæmdastjóra Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar og erum við mjög ánægð með að fá hana til liðs við okkur. Hennar fyrsta verk verður að halda utan um Kvikmyndaverðlaun Eddunnar sem er nú í fullum undirbúningi,“ er haft eftir segir Antoni Mána Svanssyni, formanni stjórnar ÍKSA.

„Það er mér mikill heiður að fá að taka þátt í verkefnum Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, vinna að Eddunni og hugðarefnum meðlima ÍKSA og tek ég auðmjúk við keflinu af Auði Elísabetu sem hefur unnið mjög gott starf. Ég vona að mér beri gæfa til að fylgja hennar góða starfi eftir,“ er haft eftir Ingibjörgu Grétu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×