Menning

„Það er ekki allt fyrir alla og það er allt í lagi“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan Kristín Mjöll stendur fyrir sýningunni Skrúður í versluninni Andrá.
Listakonan Kristín Mjöll stendur fyrir sýningunni Skrúður í versluninni Andrá. Aðsend

„Það er alltaf berskjaldandi að sýna listina sína en það er aðeins auðveldara nú í annað sinn,“ segir listakonan Kristín Mjöll sem stendur fyrir sýningunni Skrúður í tískuversluninni Andrá.

Skrúður er önnur einkasýning Kristínar en Villiblóm, fyrri sýning hennar, var haldin haustið 2021. Á sýningunni Villiblóm tók Kristín fyrir villtar íslenskar jurtir og blóm sem gjarnan voru notuð sem nytjajurtir. 

Inntak sýningarinnar Skrúður eru blóm sem mörg hver voru upphaflega flutt inn sem skrúðblóm en dreifðu sér og vaxa nú villt í íslenskri náttúru.

„Hvert og eitt blóm er litagreint og eru litir blómsins notaðir á abstrakt máta við að afbyggja viðfangsefnið og skapa nýja nálgun fyrir áhorfandann í málverki.“

Fjalldalafífill eftir Kristínu Mjöll.Aðsend

Blómin hafa löngum heillað Kristínu Mjöll. 

„Ég byrjaði að safna blómum í fyrra sumar, bæði þau sem ég hafði ekki séð áður og þau sem ég þekkti fyrir. Ég sat uppi með slatta af þurrkuðum blómum eftir sumarið sem ég vissi ekki alveg hvað ég átti að gera við. 

Þegar ég fór að googla og grennslast fyrir um blómin kom ýmislegur fróðleikur í ljós, hvaða nytjar plönturnar höfðu, margar hverjar voru notaðar til hinna ýmsu lækninga áður fyrr og jafnvel enn í dag.

Mér fannst áhugavert að skoða skoða sögu blómanna. Skrúður er framhald af Villiblómum frá því í fyrra en hér tek ég frekar fyrir skrúðplöntur sem gjarnan hafa slæðst úr görðum og vaxið villt eða vaxa bæði villt og eru ræktaðar til skrúðs.“

Þessi mynd er meðal verka Kristínar Mjallar á sýningunni. Aðsend

Kristín sækir innblásturinn víða og má þar nefna í íslenska sögu, gjörningalist, vísindi, þjóðsögur og leik. Hún segir alltaf ákveðið ferli að afhjúpa listsköpunina.

„Það er alltaf berskjaldandi að sýna listina sína en það er aðeins auðveldara nú í annað sinn. Ég reyni að hafa það hugfast að þetta er uppskera rannsóknarvinnu sem ég elska og er gaman að deila með öðrum sem hafa líka gaman af. Það er ekki allt fyrir alla og það er líka bara allt í lagi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×