Menning

Birna verðlaunuð fyrir Örverpi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birna Stefánsdóttir er handhafi bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar. Dagur B. Eggertsson afhenti henni verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag.
Birna Stefánsdóttir er handhafi bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar. Dagur B. Eggertsson afhenti henni verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag. Reykjavíkurborg

Birna Stefáns­dóttir hlaut í dag Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar við há­tíð­lega at­höfn í Höfða. Borgar­stjóri veitti Birnu verð­launin.

Þau hlýtur hún fyrir hand­ritið Ör­verpi, sem er hennar fyrsta ljóða­bók. Í til­kynningu kemur fram að alls hafi borist 77 ó­birt ljóða­hand­rit í sam­keppnina í ár.

Hand­rit eru send inn undir dul­nefni og að­eins var um­slag með réttu nafni verð­launa­höfundar opnað. Reykja­vík bók­mennta­borg UNESCO hefur um­sjón með verð­laununum sem hafa verið veitt frá árinu 1994 en árið 2004 var tekin upp sú ný­breytni að veita ein­göngu verð­laun fyrir ljóða­hand­rit. Verð­launin nema einni milljón króna.

Birna Stefáns­dóttir er fædd 1994 í Reykja­vík. Hún er með bak­grunn í stjórn­mála­fræði og út­skrifaðist með meistara­gráðu í rit­list árið 2023. Hún hefur unnið við blaða­mennsku og önnur rit­störf, þar á meðal fyrir út­varp og bóka­út­gáfur.

Í dóm­nefnd sátu: Guð­rún Sól­ey Gests­dóttir (for­maður), Sigur­björg Þrastar­dóttir og Svavar Steinarr Guð­munds­son.

„Reykja­vík bók­mennta­borg UNESCO hefur undan­farið lagt aukna rækt við ljóðið og hlúð að sam­fé­lagi skálda sem hafa vilja til að gefa aftur til baka til borgar­búa,“ segir Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri. „Það er spennandi að sjá gróskuna meðal ung­skálda og í dag fögnum við ungu ljóð­skáldi sem á svo sannar­lega fram­tíðina fyrir sér.“

Kunnug og ný fjöl­skyldu­saga

Í um­sögn dóm­nefndar kemur fram að Ör­verpi sé kafli í fjöl­skyldu­sögu sem sé les­endum bæði kunnugur og nýr og lýsi and­streymi sem öll fást við á einn eða annan hátt.

Verkið leiði lesanda á­reynslu­laust gegnum at­burða­rás sem ber bæði með sér létt­leikann og þyngslin sem fylgja því að til­heyra fjöl­skyldu og raunar tengjast öðrum mann­eskjum til­finninga­böndum. Verkið skoði þræðina sem liggja milli fólks, hvernig þeir flækjast, styrkjast og trosna á víxl.

„Hér er því lýst þegar ein undir­staða fjöl­skyldu gefur sig og hvaða af­leiðingar sá brestur hefur á heildina alla. Verkið er at­hugun á dag­legu lífi og hvaða á­hrif frá­vik hefur á hvers­dags­legar at­hafnir, bjagar raun­veru­leikann og getur verið hluti fyrir miklu stærri heild,“ segir í um­sögninni.

„Verkið heillar með lát­leysi sínu. Sagan er sögð í ein­földum og hæverskum ljóð­línum meðan undir niðri krauma sterkar til­finningar. Ör­verpi er ekki síður at­hugun á mætti tungu­málsins, hversu mörg eða fá orð duga til að endur­spegla reynslu­heim og vekja skilning við­takanda. Engu er hér of­aukið, lesanda er veitt fullt traust til að á­lykta, finna og týna rétt eins og per­sónur sögunnar. Verkinu var valinn stíll sem er um leið mynd af sjálfu við­fangs­efninu, hverfist um gloppur og eyður og hvernig við fyllum í þær með eigin til­veru og hug­myndum.“

Birna dragi með stakri stíl­fimi upp trega­blandna mynd af ver­öld sem var og þeim veru­leika sem hefur tekið við. Fjöl­skyldu­böndum sem liðast upp, kyn­slóða­bili sem gliðnar. En myndin sýni ekki síður fegurðina í því þegar okkur tekst að hrista kliðinn af okkur og vera heil í líðandi stund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×