Hægt er að sjá allt viðtalið við Gugusar í spilaranum hér fyrir neðan:
Guðlaug Sóley er nítján ára í dag og byrjaði ung í bransanum. Aðspurð hvort hún lendi í því að vera ekki tekið alvarlega svarar hún:
„Það gerist alveg. Kannski ekki oft, eða jú þetta gerist of oft. Það er alltaf svolítið erfitt að tala um þetta. Ég fann mikið fyrir því þegar ég var yngri sérstaklega, þá var ég enn yngri kona í tónlist og þá var mjög mikið um þetta. Ég hélt nefnilega að þetta væri bara eðlilegt þangað til ég var orðin aðeins eldri og þá fór fólk að segja við mig að þetta væri ekki eðlilegt. Það á ekki að koma svona fram við þig.“
„Hringi bara í mömmu og hlæ“
Hún segir ákveðna uppljómun hafa átt sér stað í kjölfarið. Hrútskýringarnar svokölluðu geta verið alls konar, þar sem ákveðnir tækni- og hljóðmenn halda jafnvel að hún viti ekki hvað hún er að gera.
„Hvernig ég á að syngja í míkrafón og tengja allt. Stundum er líka ekki hlustað á mig þegar ég bið um eitthvað. En ég hringi bara í mömmu og hlæ að þessu með henni.“

„Lít ég þá ekki út fyrir að geta pródúserað?“
Konur eru í auknum mæli að fá pláss sem pródúserar í tónlistarheiminum og segir Gugusar að hún viti af mörgum sem eru í slíku starfi.
„Það er bara spurning hvort þær séu að fá sömu athygli og karlar sem eru að pródúsera.“
Þá segist hún upplifa það að fólk trúi því ekki alltaf að hún semji allt sjálf og pródúseri.
„Ég reyni að taka því bara sem hrósi.
En svo á sama tíma hugsa ég bara bíddu ef þú horfir á mig lít ég þá ekki út fyrir að geta pródúserað?
Þetta er ótrúlega steikt pæling en ég nenni ekki að vera að hugsa of mikið um þetta. Ég bara held áfram að gera það sem ég er að gera.“
Semur fyrir Þjóðleikhúsið
Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Gugusar sem er meðal annars að semja leikhústónlist fyrir verkið Orð gegn orði sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í nóvember.
„Þetta er stórt skref sem ég er að taka. Ég hef samið fyrir myndlistarsýningar áður en ekki svona heila leiksýningu. Ég er svolítið að hoppa út í djúpu laugina en það er bara ótrúlega gaman. Ég er ótrúlega spennt, þetta er þung sýning, miklar tilfinningar og krefjandi en mjög skemmtilegt.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.