Innlent

„Fólk var farið að öskra“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðmundur Ingi vonast til þess að rútufyrirtækið sem og stjórnvöld bregðist við vegna málsins.
Guðmundur Ingi vonast til þess að rútufyrirtækið sem og stjórnvöld bregðist við vegna málsins.

Að­standandi far­þega um borð í rútu á vegum SBA sem keyrði á milli Land­manna­lauga og Reykja­víkur með far­þega frá Ferða­fé­lagi Ís­lands, vill að stjórn­völd skoði hverjir fái að keyra slíkar rútur. Far­þegar hafi verið í á­falli vegna slæms aksturs­lags rútu­bíl­stjórans. Hann segir far­þegum hafa verið boðin á­falla­hjálp þar sem margir hafi haldið að þetta yrði þeirra síðasta.

„Konan mín var um borð í þessari rútu og hringir í mig alveg í tauga­á­falli. Ég hringdi bara á lög­regluna og bað þá um að taka hann,“ segir Guð­mundur Ingi Skúla­son, bif­vélavirkja­meistari og deildar­stjóri hjá slökkvi­liðinu í sam­tali við Vísi.

Guð­mundur Ingi birti mynd­band sem einn farþeganna í rútunni tók á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Rútan fór frá Landmannalaugum til Reykjavíkur síðastliðinn sunnudag. Hann segir ferða­lagið hafa verið miklu verra en mynd­bandið gefi til kynna. Hann segir lögregluna hafa skoðað rútuna og látið þar við sitja.

„Ferða­fé­lag Ís­lands bauð far­þegum rútunnar hrein­lega upp á á­falla­hjálp, far­þegum var sendur fjölda­póstur. Mér finnst þetta galið. Ég er fyrst og fremst að hugsa um um­ferðar­öryggi, ef að bíllinn hefði farið á hliðina.“

Guð­mundur segir far­þega hafa verið ein­stak­lega skelkaða. Fjórir hafi á­kveðið að yfir­gefa rútuna á Land­vega­mótum og tveir á Sel­fossi vegna öku­lagsins. Hann segir ljóst að rútu­bíl­stjórinn hafi ekki haft neina stjórn á rútunni.

„Einn far­þegi grét víst bara í langan tíma og fólk var farið að öskra. Þetta var svona mar­tröð. Ég tók á móti konunni minni og fólk var bara í losti. Einn sagði við mig að hann héldi að þetta væri sitt síðasta, að hann myndi deyja þarna. Þú verður náttúru­lega skít­hræddur þegar þú ert í rútu sem sikk sakka­r í­trekað þvert yfir veginn.“

Segir viðbrögðin hafa verið fálát

Hann segist hafa leitað við­bragða hjá rútu­fyrir­tækinu, SBA. Þau hafi verið fá­lát. Vísir hefur leitað við­bragða hjá fyrir­tækinu vegna málsins.

„Þeim fannst þetta ekkert ó­eðli­legt og vildu í rauninni ekkert við mig ræða. Ég bað þá um að skoða bílinn en þau vildu ekkert að­hafast fyrst það varð ekkert slys. Við­brögðin pirra mig, af því að ef það hefði orðið slys á Land­veginum þá hefði verið mjög langt fyrir við­bragðs­aðila að fara.“

Guð­mundur Ingi hefur setið í stjórn Bíl­greina­sam­bandsins, keyrt rútur í hjá­verkum og segir að sér finnist vanta stór­lega upp á eftir­lit með rútu­bíl­stjórum.

„Mér finnst bara galið að það sé ekkert eftir­lit. Ég ræddi við rútu­bíl­stjórann og honum fannst ekkert ó­eðli­legt við þetta. Ég vil að það sé vakin at­hygli á þessu, að við­komandi fyrir­tæki bregðist við og að stjórn­völd fari að skoða málið. Þetta er ein­hvern veginn alveg galið.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.