Sport

Ný þjóðar­höll mun aldrei rísa árið 2025

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Einarsson er formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í innanhússíþróttum
Gunnar Einarsson er formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í innanhússíþróttum Vísir/Samsett mynd

Ljóst er að ný þjóðar­höll fyrir innan­hús­í­þróttir mun ekki rísa árið 2025 líkt og stefnt hafði verið að. Hægt hefur verið á verk­efninu og segist Gunnar Einars­son, for­maður fram­kvæmda­nefndar um þjóðar­höll, nú vonast til að þjóðar­höll verði risin í fyrsta lagi í árs­lok 2026.

Í frum­varpi til fjár­laga fyrir árið 2024 er lagt til að eitt hundrað milljón króna fram­lag til undir­búnings fram­kvæmda vegna Þjóðar­hallar verði fellt niður. Gunnar, sem fer fyrir fram­kvæmda­nefndar um þjóðar­höll í innan­húss­í­þróttum, segir það ekki hafa á­hrif á starf nefndarinnar.

„Varðandi þessar eitt hundrað milljónir þá er ég ekki alveg kunnugur því en við skiluðum af okkur frum­at­hugun í desember árið 2022 um þjóðar­höll og fengum þá heimild fyrir því að vinna á­fram að verk­efninu eftir það. Við höfum verið með í undir­búningi for­vals­gögn, sam­keppnis­lýsingu, tækni- og rýmis­lýsingu á­samt öðru.“

Viljayfirlýsing ríkis og borgar, um að ráðast í byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, var undirrituð þann 6. maí árið 2022. Kom þar fram að stefnt yrði að því að framkvæmdum myndi ljúka árið 2025.

Nú sé beðið eftir form­legri niður­stöðu ríkisins um næstu skref.

„Til að mynda um kostnaðar­skiptingu ríkis og borgar í þessari fram­kvæmd og heimild til þess að aug­lýsa sam­keppni sem við erum með gögn til­búin fyrir. Við gætum þess vegna aug­lýst þá sam­keppni í byrjun októ­ber. Það er ekkert því til fyrir­stöðu, af okkar hálfu, að aug­lýsa sam­keppnina. Þá er deili­skipu­lagið klárt.“

Rís í fyrsta lagi í árslok 2026

Hann les ekkert í til­löguna í fjár­laga­frum­varpi næsta árs um að fella niður þær eitt hundrað milljónir sem áttu að fara í undir­búning fram­kvæmdarinnar.

„Ég les ekkert í það sér­stak­lega því við erum með nægt fé í það út þetta ár sem og árið 2024. Það voru settar í þetta eitt hundrað milljónir frá Reykja­víkur­borg og aðrar eitt hundrað milljónir frá ríkinu á sínum tíma. Við erum bara að vinna með þá fjár­muni í undir­búnings­vinnu okkar og þurfum ekkert meira fé en það til þess að geta aug­lýst sam­keppnina.“

Miðast á­ætlanir enn við það að ný þjóðar­höll rísi árið 2025?

„Nei, við erum að horfa á lengri tíma en það. Það var hægt ör­lítið á verk­efninu á meðan að menn voru að ná áttum. Við vissu­lega stefndum á árs­lok 2025 en ég gæti trúað því, með því að aug­lýsa sam­keppnina núna í októ­ber, að ný þjóðar­höll gæti risið í árs­lok 2026 eða upp­haf ársins 2027.“

Þannig að í lok ársins 2026 gæti ný þjóðar­höll verið risin?

„Ég geri mér vonir um það en svo getur alltaf eitt­hvað komið upp á leiðinni. Við bíðum eftir þessari form­legu niður­stöðu ríkisins núna.“

Laugardalshöllin á undanþágu

Landslið Íslands í hand- og körfubolta hafa verið að leika heimaleiki sína í Laugardalshöllinni undanfarin ár á undanþágum. 

Sérsamböndin hér á landi, HSÍ og KKÍ hafa þurft að sækja um leyfi til þess að spila í höllinni sem uppfyllir ekki þær nútímakröfur sem gerðar eru til leikstaða á alþjóðagrundvelli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×