Tónlist

Köld Reykjavík, sætar stelpur og svefnleysi innblástur

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Strákarnir í Spacestation vilja endurvekja 60's rokkhljóminn í bland við nýjan hljóm.
Strákarnir í Spacestation vilja endurvekja 60's rokkhljóminn í bland við nýjan hljóm. bjarki björnsson

Fyrsta plata hljómsveitarinnar Spacestation hefur hlotið góðar viðtökur. Ætlunin er að endurvekja rokkhljóm sjöunda áratugarins og skapa „tónlist fyrir fallegt fólk“.

Hljómsveitin var mynduð árið 2021 af þeim Björúlfi Jes Einarssyni og Víði Rúnarssyni. Við þá bættust Ólafur Andri Sigurðsson, Hafsteinn Jóhannsson og Kjartan Thors.

Fyrsta lagið, Hvítt vín, kom út júní og hefur notið vinsælda. Fimm laga smáskífan Bæbæ fylgdi í júlí.

Nýtt lag kemur út á laugardag með útgáfutónleikum um kvöldið á KEX hostel, ásamt hljómsveitinni Sameheads.

„Þetta gengur út á að gera góða tónlist, ekki í kringum eitthvað sem virkar heldur bara það sem við fílum,“ segir Björgúlfur í samtali við Vísi. „En það er mikilvægt að fallegt fólk geti dansað við tónlistina.“

Hljómsveitin hefur komið fram á ýmsum stöðum í sumar.bjarki björnsson

Rokktónlist frá sjöunda áratugnum hefur veitt þeim innblástur.

„Við viljum blanda gamla stöffinu við nýja stöffið. Velvet Underground og annað 60's rokk er innblástur. En líka My Bloody Valentine og Pixies og önnur 90's bönd. Svo sækjum við innblástur úr kaldri Reykjavíkurborg, sætar stelpur og hugbreytandi efni. Svefnleysi jafnvel líka.“

Hljómsveitin byrjaði sem hobbí, segir Björgúlfur, en alvaran tók við þegar þeir hófu að taka upp fyrrnefnda plötu í Berlín.

þórsteinn svanhildarson

„Svo er lag að koma út á laugardaginn. Það heitir Hver í fokkanum og er í raun mantra. Það er bara ein setning í öllu laginu og þýðir bara „ég veit hver ég er, hver í fokkanum ert þú?“ Snýst bara um trú á sjálfum sér.“

Mikið er unnið með einföld skilaboð. „Eða bara engin skilaboð,“ bætir Björgúlfur við. Eins og áður segir eru útgáfutónleikar haldnir á KEX næsta laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×