Sport

Dennis Schröder hetja Þjóðverja í sigri á Ástralíu í háspennuleik

Siggeir Ævarsson skrifar
Patty Mills og Dennis Schröder tókust oft á í dag en Schroder hafði betur að lokum
Patty Mills og Dennis Schröder tókust oft á í dag en Schroder hafði betur að lokum Vísir/Getty

Þjóðverjar eru komnir í kjörstöðu í E-riðli á heimsmeistaramótinu í körfubolta eftir góðan 85-82 sigur á Ástralíu í dag. Dennis Schröder, leikmaður Toronto Raptors, skoraði 30 stig fyrir Þjóðverja og leiddi liðið til sigurs.

Leikurinn í dag var toppslagur E-riðils, þar sem einnig leika heimamenn í Japan og Finnar. Ástralía er um þessar mundir í 3. sæti heimslista FIBA en flestir leikmenn liðsins leika í NBA deildinni. Þjóðverjar eru í 11. sæti sama lista.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af og liðin skiptust á að leiða. Þjóðverjar fóru með fimm stiga forskot inn í hálfleikinn en góður þriðji leikhluti hjá Áströlum snéri stöðunni við og staðan 66-62 þeim í vil fyrir lokaátökin.

Þjóðverjar reyndust svo sterkari á lokasprettinum en staðan var 79-79 þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Schröder fór á vítalínuna og setti bæði og skoraði svo aftur skömmu seinna og staðan 81-83 þegar 46 sekúndur voru til leiksloka.

Josh Giddey fékk tækifæri til að jafna leikinn með skoti frá miðju þegar flaut gall en færið var þröngt og boltinn aldrei nálægt því að rata ofan í. Ástralir vildu fá villu en dómarar leiksins tóku það ekki í mál.

Svekkjandi endir fyrir Ástrali og Giddey, en hann getur í það minnsta huggað sig við það að hann átti sennilega flottustu tilþrif leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×