Fótbolti

Þórsarar með sinn fyrsta sigur síðan 16. júní

Siggeir Ævarsson skrifar
Þórsarar tóku gleði sína á ný í kvöld
Þórsarar tóku gleði sína á ný í kvöld Facebook Þór

Þór frá Akureyri vann nú rétt í þessu sinn fyrsta sigur í Lengjudeildinni síðan 16. júní þegar liðið lagði Gróttu norðan heiða nokkuð örugglega 3-1.

Þórsarar voru án sigurs í síðustu fimm leikjum og höfðu aðeins safnað tveimur stigum í sarpinn af 15 mögulegum í þessum leikjum. Sigurinn í kvöld var því án vafa kærkominn en Þór komst í 3-0 áður en Gróttumenn löguðu stöðuna undir lok leiks.

Bjarni Guðjón Brynjólfsson kom heimamönnum yfir á 31. mínútu og Valdimar Daði Sævarsson bætti svo við tveimur mörkum og gulltryggði Þór góðan sigur. Aron Bjarki Jósepsson lagaði stöðuna á 84. mínútu en lengra komust gestirnir ekki.

Með sigrinum fara Þórsarar í 17 stig og skjótast upp töfluna, úr 9. sæti í það 6. með jafn mörg stig og leiknir en töluvert óhagstæðari markatölu.

Einn leikur til viðbótar er á dagskrá í Lengjudeildinni, Selfyssingar taka á móti Grindvíkingum, en þar var staðan markalaus í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×