Innlent

Vís­bendingar um jarð­hita­virkni en ekki hægt að úti­loka kviku­hreyfingar

Eiður Þór Árnason skrifar
Óvenju mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu.
Óvenju mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu. Vísir/RAX

Aukin skjálftavirkni hefur mælst í Kötlu síðustu daga og hófst hrina þar skömmu eftir miðnætti í nótt. Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli síðustu vikur er nú sú mesta síðan haustið 2016. Talið er að þetta séu merki um jarðhitavirkni á svæðinu en ekki er hægt að útiloka kvikuhreyfingar.

Að sögn Veðurstofu Íslands höfðu rúmlega 95 skjálftar mælst klukkan 6:30 í morgun, þar af átta yfir 3,0 stig og var sá stærsti 4,4. Mælingar sýna aukningu í rafleiðni í Múlakvísl sem er nú óvenjuhá miðað við árstíma og þá sýnir gasmælir á Láguhvolum aukningu í jarðhitagasi.

„Túlkun mælinga bendir frekar til jarðhitavirkni en ekki er hægt að útiloka kvikuhreyfingar. Líkur eru á vatnavöxtum í Múlakvísl vegna aukins hlutfalls jarðhitavatns í ánni,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Mynd frá því í morgun úr vefmyndavél við brúna yfir Múlakvísl á Þjóðvegi 1.Veðurstofan

Gasmengun við ána geti fylgt jarðhitavatni og um helgina megi búast við hægri breytilegri átt á svæðinu. Því geti gas safnast þar fyrir. Að sögn Veðurstofunnar má næstu daga búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli en jarðskjálftar auka líkur á berg- og íshruni.

Fólki er ráðlagt frá að vera á ferli nærri upptökum Múlakvíslar og við Kötlujökul.

Kortið sýnir staðsetningu jarðskjálfta sem hafa orðið í Kötlusöskjunni í dag.Skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×