Sport

Gaupi kveður skjáinn í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gaupi les sinn síðasta íþróttafréttapakka í kvöld eftir 32 ár í bransanum.
Gaupi les sinn síðasta íþróttafréttapakka í kvöld eftir 32 ár í bransanum. vísir/arnar

Íþróttafréttamaðurinn ástsæli Guðjón Guðmundsson mun lesa íþróttafréttir í síðasta skipti á Stöð 2 í kvöld.

Guðjón, eða Gaupi eins og alþjóð þekkir hann, byrjaði fyrst að vinna hjá Stöð 2 árið 1991 er hann var ráðinn í að lýsa handboltaleikjum.

Var ekki komið að tómum kofanum þar enda hafði Gaupi verið aðstoðarmaður Bogdans Kowalczyk með íslenska landsliðið og Víking í mörg ár þar á undan.

Gaupi rennir yfir inngangana sína áður en hann fer í loftið.vísir/arnar

Sumarið 1992 er Gaupi síðan ráðinn inn í afleysingar af þáverandi fréttastjóra Stöðvar 2, Ingva Hrafni Jónssyni. Þar hefur hann verið síðan og kveður nú sviðið í kvöld eftir afar farsælan feril í bransanum.

Það verður svo sannarlega sjónarsviptir af Gaupa sem er þekktur fyrir sín mannlegu viðtöl og frábærar lýsingar. Hann hefur einnig framleitt fjölda þátta um Sumarmótin sem slógu heldur betur í gegn.

Eftir íþróttafréttir í kvöld verður Gaupi í viðtali í Ísland í dag þar sem hann fer yfir sinn eftirminnilega feril.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×