Innlent

Stuðningur við Úkraínu hljóti að vega þyngra en „sér­hags­munir í land­búnaði“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
ólafur Stephensen framkvæmdarstjóri félags atvinnurekanda
ólafur Stephensen framkvæmdarstjóri félags atvinnurekanda Vísir/Vilhelm

Alþingi samþykkti í fyrra að tillögu fjármála-og efnahagsráðherra að fella niður tolla á vörur sem koma frá Úkraínu en þetta var liður í stuðningi Íslands við efnahagslíf Úkraínu á stríðstímum. Í lok mánaðar rennur ákvæðið út og framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda óttast að fjármálaráðherra nái ekki að endurnýja ákvæðið í tæka tíð.

Neytendur á Íslandi hafa þá einnig notið góðs af lægra vöruverði þeirra vara sem koma frá Úkraínu vegna bráðabirgðaákvæðisins.

Ísland fetaði í fótspor Evrópusambandsins og Bretlands þegar bráðabirgðaákvæði í tollalögum var sett fram og samþykkt á Alþingi. Bæði ESB og Bretland hafa nú framlengt sín ákvæði og stuðning gagnvart Úkraínu en það íslenska rennur út í lok mánaðar.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur áhyggjur af því að fjármálaráðherra nái ekki að framlengja þetta úrræði í tæka tíð.

„Það er ekki komið neitt frumvarp frá fjármálaráðherranum. Þau svör fást úr ráðuneytinu að það sé væntanlegt en við höfum áhyggjur af því að það náist einfaldlega ekki að afgreiða þetta á þinginu í tæka tíð. Ég hef ákveðna áhyggjur af því að þessi seinkun sé tilkomin vegna mikils þrýstings frá hagsmunaaðilum í landbúnaði sem hafa séð ofsjónum yfir þessari takmörkuðu samkeppni sem hefur komið frá úkraínskum búvörum. Ég vona að sjálfsögðu að svo sé ekki því annars vegar hagur neytenda og hins vegar stuðningurinn við okkar vinaríki Úkraínu hlýtur að vega miklu þyngra en einhverjir sérhagsmunir í landbúnaði.“

Bændasamtök Íslands sögðu í umsögn til Alþingis 13. júní 2022 að ákvæðið gæti leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur frá Úkraínu í meira mæli sem gæti haft neikvæð áhrif á verð eða framboð íslenskra landbúnaðarvara.

„Okkur finnst það bara satt að segja mjög sérkennilegt og lítil reisn yfir því að Bændasamtök Íslands voru eini hagsmunaaðilinn sem lagðist gegn þessari löggjöf á sínum tíma og hafa kvartað sáran undan henni síðan og legið í þingmönnum og ráðherrum um að falla frá þessu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×