Innlent

Minnkandi lunda­stofn hræðir ferða­þjónustuna

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Vilhelm

Íslenski lundastofninn er í miklum vandræðum og hefur dregist saman um sjötíu prósent á síðustu þrjátíu árum. Þetta kemur ekki síst illa við ferðaþjónustuna sem hefur markaðssett lundann sem einkennisfulg landsins. 

Lundastofninn, rétt eins og aðrir fuglastofnar, stækkar og minnkar á víxl í takt við fæðuframboð, sjúkdóma og aðra samverkandi þætti. Framkvæmdastjóri fyrirtækja í ferðaþjónustu segir bagalegt fyrir greinina ef stofninn minnki enn frekar, enda spili lundinn stórt hlutverk í markaðssetningu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, hefur áhyggjur af þróuninni.

„Þetta er náttúrulega ekki gott fyrir lífríkið og því síður þá gott fyrir ferðaþjónustuna sem hefur gert lundann að aðalsmerki sínu út á við. Þetta er fugl sem er afar fallegur og sérstakur. Þetta er eitthvað sem bætir svo ofboðslega miklu við upplifunina þegar fólk kemur hingað; að geta staðið á Borgarfirði eystri og fylgst með lundavarpinu þar, í Reynisfjöru, Vesturlandi og Vestmannaeyjum. Þetta er ótrúlega fallegur fugl og það væri virkileg synd mjög ef stofninn næði sér ekki á strik aftur.“

Fólk komi gagngert til að skoða lundann

Ferðamenn komi jafnvel beinlínis hingað til lands til þess að skoða lundann.

„Það er alveg til í dæminu að fólk komi gagngert til þess að sjá lundann og kannski sérstaklega fólk frá löndum þar sem lundinn er friðaður og sést kannski ekki mikið. Þetta eitt af því sem fólk sækir í á Íslandi.“

Lífríkið sé síbreytilegt og það geti haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna.

„Við höfum séð kríuvarp breytast líka, færast til á landinu og fleira. Það eru ýmis áhyggjuefni varðandi þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×