Menning

Hönnunar­Mars hefst á morgun: 100 sýningar og 400 þátt­tak­endur

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Það var líf og fjör í opnunarhófi HönnunarMars í fyrra.
Það var líf og fjör í opnunarhófi HönnunarMars í fyrra. Aldís Pálsdóttir

Opnunarhóf HönnunarMars fer fram á morgun, miðvikudaginn 3. maí, í Hörpu klukkan 17:00. Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs setja hátíðina með formlegum hætti og eru öll velkomin.

Þó að opnunarhófið fari fram á morgun tóku Epal í Skeifunni og Listhús Ófeigs á Skólavörðustíg forskot á sæluna og verða bæði rýmin með sýningaropnanir í dag klukkan 17:00. 

HönnunarMars verður til 7. maí undir yfirskriftinni „Hvað nú?“ en leiðandi spurningar hátíðarinnar í ár eru meðal annars: Hvað er að gerast núna? Hvað tekur við? Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Viðburðurinn er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og er framleiddur af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Hátíðin er haldin í fimmtánda sinn í ár en hún hefur farið fram árlega frá 2009. 

Margt var um manninn á opnunarhófinu í fyrra.Aldís Pálsdóttir

Í fréttatilkynningu frá HönnunarMars kemur eftirfarandi fram:

„HönnunarMars er boðberi nýrra hugmynda, innblásturs, skapandi lausna og bjartsýni þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti.

Í ár munu 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir endurspegla það sem efst er á baugi á sviði hönnunar og arkitektúrs, veita innsýn inn í nýjar lausnir og hugmyndir og sýna nýjar leiðir til að takast á við áskoranir samtímans til innblásturs fyrir þátttakendur og gesti.

Skapandi tilraunir, endurvinnsla, nýsköpun, endurnýting, verðmætasköpun og leikur eru rauður þráður í dagskránni þar sem ólíkar hönnunargreinar á borð við arkitektúr, grafíska hönnun, fatahönnun, vöruhönnun og stafræna hönnun varpa ljósi á þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun hér á landi.“

Kynntu þér dagskránna í heild sinni hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×