Sport

Logi leggur skóna á hilluna eftir tímabilið: Ekki leiðinlegt að enda deildarkeppnina svona

Andri Már Eggertsson skrifar
Allt er fertugum fært?
Allt er fertugum fært? Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík vann ótrúlegan þriggja stiga sigur á Keflavík 79-82. Logi Gunnarsson var ánægður með sigurinn og tilkynnti að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir tímabilið.

„Þetta var rosalega gaman og það var mikilvægt fyrir okkur að ná sigri fyrir úrslitakeppnina þar sem við vorum slakir í síðasta leik. Mér fannst þetta flatt og mögulega var það sérstakt að við þurftum ekki að vinna en við ætluðum alltaf að mæta hingað og vinna,“ sagði Logi Gunnarsson eftir sigur á Keflavík.

Njarðvík tapaði fyrir Val í síðustu umferð og Logi sagði að það væri mikilvægt fyrir framhaldið að vinna Keflavík sem var síðasti leikur í deildarkeppninni.

„Það var ljúft að vinna leik sem við vorum ekki góðir í og það var styrkleikamerki. Við munum halda áfram að vinna í ákveðnum hlutum og það var gott að enda deildarkeppnina á alvöru naglbít gegn Keflavík.“

Logi var spenntur fyrir úrslitakeppninni þar sem Njarðvík fær Grindavík í átta liða úrslitum.

„Að mæta Grindavík er annar nágrannaslagur og okkur líður best í miklum látum og stemmningu.“

Logi Gunnarsson tilkynnti að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir tímabilið. 

„Ég er búinn að vera að hugsa þetta í vetur og það er svolítið síðan í tók þessa ákvörðun. Ég mun njóta þess í botn og ætla segja þetta gott eftir tuttugu og sex tímabil. Það var ekki leiðinlegt að enda deildarkeppnina á sigri hér í Keflavík og síðan verður bara partý það sem eftir er tímabilsins.“

Dóttir Loga Gunnarssonar spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki Njarðvíkur á dögunum og Loga fannst gaman að sjá hana taka sín fyrstu skref.

 

„Það var ljúft að vera í stúkunni og fylgjast með henni vitandi að við værum í efstu deild saman. Það hafði þó ekki áhrif á það að ég sé að hætta en þetta var gaman. Núna tekur annað við eftir tímabilið og það verður gaman að fylgjast með krökkunum í þessu,“ sagði Logi Gunnarsson að lokum sem ætlaði að njóta þess að spila síðustu leiki sína á ferlinum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.