Bayern úr leik eftir tap í Lundúnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla og Stina Blackstenius í leik kvöldsins.
Glódís Perla og Stina Blackstenius í leik kvöldsins. David Price/Getty Images

Íslendingalið Bayern München er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir 2-0 tap fyrir Arsenal í 8-liða úrslitum keppninnar. Bayern leiddi 1-0 eftir fyrri leikinn en tvö mörk í fyrri hálfleik breyttu gangi einvígisins.

Skytturnar voru mun sterkari aðilinn í leik kvöldsins og komust yfir eftir aðeins tuttugu mínútna leik með einu af mörkum ársins. Gestirnir frá Þýskalandi voru í vandræðum með að spila boltanum út úr vörninni og Arsenal vann boltann ofarlega á vellinum.

Boltinn barst til Leah Williamson sem lagði hann snyrtilega með hælnum á Frida Maanum sem skoraði með þessu líka glæsilega skoti, slá og inn alveg upp við samskeytin.

Staðan í einvíginu þarna orðin 1-0 Skyttunum í vil og skömmu síðar var hún orðin 2-0. Stina Blackstenius skallaði þá fyrirgjöf Katie McCabe í netið af stuttu færi. Frábær sókn hjá Arsenal upp vinstri vænginn og skallinn af stuttu færi.

Þrátt fyrir að Arsenal hafi fengið færi til að klára leikinn þá gekk það ekki eftir og undir lokin setti Bayern mikla pressu á heimaliðið. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af bekknum og Glódís Perla Viggósdóttir átti meðal annars skalla framhjá undir lok leiks.

Allt kom þó fyrir ekki og Arsenal er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan 2013. Barcelona er einnig komið í undanúrslit og á morgun kemur svo í ljós hvaða lið fylgja þeim þangað.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira