Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2023 sem fara fram 17. mars næstkomandi. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan en þar sem Árný var stödd á tónleikaferðalagi erlendis þurftum við að nýta okkur tæknina:
Hver ert þú með eigin orðum?
Feimin, en mjög opin og skrítin þegar ég kynnist fólki betur.
Hvernig myndir þú lýsa þínum tónlistarstíl?
Folk eða indie, einhver blanda af því held ég.
Hver var kveikjan að því að þú byrjaðir í tónlist?
Ég hef alltaf verið í tónlistarskóla en ég fékk minn fyrsta gítar fjórtán ára og lærði sjálf.
Á þeim tíma var ég farin að finna og hlusta á tónlist sem mér fannst raunverulega góð í stað þess að hlusta á bara það sem var vinsælt.
Það kveikti held ég alveg á tónlistaráhuganum upp á nýtt.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?
Fólkið sem hlustar, góð viðbrögð og sögur frá fólki sem hefur verið að hlusta, líka tilfinningin eftir tónleika.
En erfiðasta?
Að ferðast og spila á tónleikum. Mér finnst erfitt að venjast nýjum stöðum og koma fram, ég er mikill introvert og finnst eiginlega best að vera bara heima hjá mér.
En ég veit að þetta er líka gott fyrir mig, ég er stöðugt að fara út fyrir þægindarammann, bæta mig og verða sterkari sem manneskja.
Er eitthvað við tónlistarbransann sem hefur komið þér á óvart?
Hvað allir þekkjast og tengjast á skrítinn hátt, við erum öll bara manneskjur með okkar sögur og það sem er skrítið við það er að við vinnum við að segja þær á frekar opinskáann hátt.
En mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt hvernig allir innan bransans þekkjast, eins og lítið samfélag bara.
Drauma samstarfs aðili?
Blake Mills, Gregory Alan Isakov, Andy Shauf eða Júníus Meyvant.
Áttu þér einhverja íslenska fyrirmynd í tónlistarheiminum?
Lay Low, Júníus Meyvant, Ásgeir og fleiri.
Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem Nýliði ársins?
Bara ótrúlega góð, bjóst ekki við þessu og er bara mjög þakklát.