Lífið

Milljónasti farþeginn fær að fljúga frítt út ævina

Samúel Karl Ólason skrifar
Ikechi Chima Apakama með flugmiða sem gildir út ævina.
Ikechi Chima Apakama með flugmiða sem gildir út ævina. Play

Play flutti í morgun milljónasta farþegann en sá fær að fljúga ókeypis með flugfélaginu út ævina. Hinn heppni heitir Ikechi Chima Apakama og er 32 ára gamall Breti. Hann kom hingað til lands frá Liverpool í morgun með tveimur vinum sínum.

Farþegum var tilkynnt við brottför að milljónasti farþeginn væri um borð og að haldin yrði veisla í Keflavík. Farþegar fengu veglegar gjafir og kræsingar.

Vinir Apakama vissu hvað væri í vændum og skemmtu sér samkvæmt tilkynningu frá Play vel yfir leyndarmálinu.

Apakama og félagar voru sóttir á flugvöllinn á glæsilegum og glænýjum Cadillac Escalade. Á leiðinni til Reykjavíkur var nafn Apakama á stóru auglýsingaskilti þar sem hann er boðinn velkominn til Íslands.

„Ég vil nýta tækifærið og þakka hverjum og einum farþega sem hefur valið að fljúga með Play frá því við hófum starfsemi í júlí árið 2021. Að við höfum nú flogið einni milljón farþega er risastór áfangi. Ég efast ekki um að þetta sé stór dagur fyrir Apakama en þetta er enn stærri dagur fyrir okkur hjá Play,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×