Lífið

Fyrsta sýnis­horn úr ís­lensku kvik­myndinni Óráð

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Íslenska hryllingsmyndin Óráð verður frumsýnd 31. maí.
Íslenska hryllingsmyndin Óráð verður frumsýnd 31. maí.

Vísir frumsýnir hér fyrstu stiklu úr íslensku kvikmyndinni Óráð. Um er að ræða fyrstu íslensku hrollvekjuna sem kemur út í langan tíma en hún er væntanleg í kvikmyndahús þann 31. mars.

Myndin fjallar um Inga, ungan fjölskylduföður sem er að reyna koma undir sig fótunum að nýju eftir að hafa orðið valdur að hræðilegu slysi. Þegar hann finnur leigjanda látinn í Airbnb íbúð sinni fer að halla undan fæti hjá honum. Dularfullir hlutir fara að gerast þegar Ingi reynir að púsla saman fortíð mannsins á sama tíma og hann forðast að gera upp sína eigin.

Með aðalhlutverk fara þau Hjörtur Jóhann Jónsson og Heiðdís Chadwick en í öðrum hlutverkum eru Steindi Jr., Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Kristbjörg Kjeld og Jóhann Sigurðsson.

Myndin verður frumsýnd þann 31. mars.

Leikstjóri er Arró Stefánsson en þetta er í fyrsta sinn sem hann bregður sér í leikstjórastólinn. Hann á að baki fimmtán ára feril sem kvikmyndatökumaður og hefur skotið þáttaraðir á borð við Hreinan Skjöld og Steypustöðina. Þá hefur hann einnig starfað við auglýsinga- og þáttagerð í Japan.

Framleiðandi myndarinnar er Freyr Árnason. Eitt af því sem gerir myndina einkar sérstaka er að hún var að hluta til fjármögnuð með Bitcoin viðskiptum og er þetta því mögulega fyrsta íslenska kvikmyndin sem slík viðskipti hafa leitt af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×