Innlent

Fylgi Vinstri grænna heldur á­fram að dala í nýrri könnun

Atli Ísleifsson skrifar
Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga þá væri ríkisstjórnin fallin.
Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga þá væri ríkisstjórnin fallin. Vísir/Egill

Fylgi Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, heldur áfram að dala og mælist nú 5,9 prósent í nýrri skoðanakönnun Prósents fyrir Fréttablaðsins sem birt var í morgun. Sjálfstæðisflokkur mælist með rúmlega 23 prósenta fylgi og Samfylkingin með rúmlega 22 prósent.

Í grein Fréttablaðsins kemur fram að fylgi Vinstri grænna hafi verið átta prósent í könnun í nóvember og um sjö prósent í desember. Fram kemur að fylgi flokksins sé mest hjá fólki með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun, eða tíu prósent.

Píratar mælast með 12,5 prósent og fara þar úr 14,3 prósentum í könnun Prósents í desember. Framsókn mælist nú með 11,8 prósent, einu meira en í desember. Flokkur fólksins mælist með 9,5 prósent, Viðreisn 6,9 prósent, Miðflokkurinn 4,1 prósent og Sósíalistaflokkurinn sömuleiðis.

Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga væri ríkisstjórnin fallin og fengi 28 þingmenn kjörna á móti 35 þingmönnum stjórnarandstöðu.

Könnunin var netkönnun sem framkvæmd var dagana 27. janúar til 6. febrúar þar sem úrtakið var 2.400 manns og svarhlutfall 51,4 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×