Tíska og hönnun

Tískuheimurinn iðar í París: Stórstjörnur skreyttar dýrahöfðum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kylie Jenner sat á fremsta bekk á tískusýningu Schiaparelli í París og klæddist hönnun úr nýju línunni.
Kylie Jenner sat á fremsta bekk á tískusýningu Schiaparelli í París og klæddist hönnun úr nýju línunni. Edward Berthelot/Getty Images

Hönnuðurinn Daniel Roseberry braut Internetið í gær með frumlegri og óvanalegri vor/sumar línu sinni fyrir tískuhúsið Schiaparelli.

Línan var frumsýnd á tískuvikunni í París og ofurfyrirsætur gengu tískupallana á meðan áhrifavaldar og stórstjörnur á borð við Kylie Jenner og Doja Cat sátu á fremsta bekk. Kylie skartaði svörtum kjól með ljónshöfuð á bringunni og Doja Cat var þakin þrjátíu þúsund rauðum kristöllum.

Raunverulegt gervi

Vert er að taka fram að þrátt fyrir að virðast raunveruleg voru þessi höfuð blessunarlega búin til af tískuhúsinu og ekkert dýr var skaðað í ferlinu. Roseberry og teymið hans lögðu mikla vinnu í að hanna skúlptúrana sem mynduðu höfuðin og var hugað að hverju einasta smáatriði.

Fyrirsætan Shalom Harlow gekk tískupallana fyrir Schiaparelli í París í gær. Estrop/Getty Images

Nýju flíkurnar voru með sanni framúrstefnulegar og raunveruleg gervihöfuð dýra á borð við ljón, hlébarða og úlf vöktu hvað mesta athygli þar sem þau héngu utan á hátískuflíkum en fyrir sýninguna hafði Roseberry sagt: „Ekkert er eins og það sýnist“.

Irina Shayk gekk tískupallinn fyrir Schiaparelli eins og ljónynja.Estrop/Getty Images

Guðdómlegur gleðileikur

Tískuhúsið Schiaparelli hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að sjokkera. Fyrir þessa sýningu sótti Roseberry innblástur í sjálfsefa og ákveðið helvíti frá Inferno, sem er fyrsti hluti ritsafnsins Hinn guðdómlegi gleðileikur (e. Divine Comedy) eftir skáldið Dante. 

Í samtali við Vogue segir Roseberry að dýrin hafi verið bókstafleg skírskotun í ritið, þar sem Dante skrifar um að þurfa að mæta ljóni, hlébarða og kvenúlfi sem öll standa fyrir ólíka hluti.

Tískuhönnuðurinn Daniel Roseberry gekk eftir tískupallinum í lok Schiaparelli vor/sumar sýningarinnar í gær í París. Estrop/Getty Images

Samþykki frá PETA

Dýraverndarsamtökin PETA hafa löngum talað gegn notkun á feldi og leðri í tískubransanum en samkvæmt fjölmiðlinum TMZ er Ingrid Newkirk, forseti samtakanna, aðdáandi nýju línu Schiaparelli. Segir hún að þetta geti vonandi spornað gegn veiðiþjófum, sem til dæmis slátra ljónum til að uppstoppa þau og selja.

„Þessi stórkostlega nýstárlegu þrívíddar dýrahöfuð sýna að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ er haft eftir Newkirk.

Sjón er sögu ríkari en hér má sjá nokkrar vel valdar myndir frá sýningunni til viðbótar:

Naomi Campbell klæddist úlfi sem var samt ekki úlfur.Estrop/Getty Images

Doja Cat mætti á tískusýningu Schiaparelli í París þakin 30 þúsund kristöllum.Jacopo Raule/Getty Images

Roseberry sótti innblástur í Hinn guðdómlega gleðileik eftir Dante.Estrop/Getty Images

Sýningin var með sanni framúrstefnuleg.Estrop/Getty Images

Kjóllinn sem Kylie Jenner klæddist á sýningunni vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum. Sumir fylgjendur hennar voru mjög óánægðir og sögðu þetta ýta undir dýraníð, á meðan forseti PETA sagði þetta skref í rétta átt fyrir tískuheiminn.MEGA / GC Images





Fleiri fréttir

Sjá meira


×