Enski boltinn

Fullyrðir að Conte yfirgefi Tottenham eftir tímabilið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte mun að öllum líkindum yfirgefa Tottenham eftir yfirstandandi tímabil.
Antonio Conte mun að öllum líkindum yfirgefa Tottenham eftir yfirstandandi tímabil. Visionhaus/Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, mun yfirgefa félagið í sumar þegar samningur hans rennur út.

Þetta fullyrðir ítalski íþróttafréttamaðurinn Gianluca Di Marzio, en Conte tók við stjórnartaumunum hjá Lundúnaliðinu í nóvember árið 2021. Hann skrifaði þá undir eins og hálfs árs langan samning sem rennur út að tímabilinu loknu.

Í samningi Conte við Tottenham er ákvæði sem gerir félaginu kleift að framlengja samningnum við ítalska þjálfarann um eitt ár. Það virðist þó ekki vera í kortunum hjá félaginu að nýta sér það ákvæði.

Þær fréttir sem ég get fært ykkur með fullri vissu eru þær að Conte mun yfirgefa Tottenham eftir að samningur hans rennur út eftir tímabilið,“ segir Di Marzio.

„Það var enginn neisti. Samningurinn er að renna út og félagið hefur ekki boðið honum endurnýjun.“

Conte tók við liðinu af Portúgalanum Nuno Espirito Santo eftir afleitt gengi liðsins undir hans stjórn. Ítalinn snéri gengi Tottenham við á seinasta tímabili og undir hans stjórn tryggði Tottenham sér sæti í Meistaradeild Evrópu í lokaumferð seinasta tímabils.

Það hefur hins vegar hallað hratt undan fæti og eftir ágætis byrjun á yfirstandandi tímabili virðist Tottenham vera í frjálsu falli. Liðið hefur aðeins unnið þrjá deildarleiki af seinstu níu og situr í fimmta sæti deildarinnar með 33 stig eftir 20 leiki, sex stigum frá sæti í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×