Sport

Rekinn klukkutímum eftir að hafa unnið leikinn sem hann „mátti ekki“ vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovie Smith stýrði liði Houston Texans í síðasta sinn í sigri á Indianapolis Colts í gær.
Lovie Smith stýrði liði Houston Texans í síðasta sinn í sigri á Indianapolis Colts í gær. AP/Darron Cummings

Houston Texans vann dramatískan 32-31 sigur á Indianapolis Colts í lokaleik NFL tímabilsins í gær en þjálfarinn var engu að síður rekinn aðeins nokkrum klukkutímum eftir leikinn.

Lovie Smith vann nefnilega leikinn sem hann mátti helst ekki vinna.

Sigurinn í gær þýðir að Houston Texans fær ekki fyrsta valrétt í nýliðavalinu í vor en hann fór yfir til Chicago Bears liðsins eftir þessi úrslit.

Liðið með lakasta árangurinn á leiktíðinni fær að velja fyrst í nýliðavalinu.

Chicago tapaði sínum leik og datt niður í þetta „eftirsótta“ neðsta sæti.

Texans endaði tímabilið ágætlega og hafði bitið frá sér í fjórum af síðustu fimm leikjum.

Texans vann samt aðeins þrjá leiki á leiktíðinni og annað árið í röð þarf þjálfari liðsins að taka pokann sinn eftir tímabilið. David Culley var rekinn í janúar í fyrra en Lovie Smitt hafði verið varnarþjálfari og aðstoðarþjálfari hans.

Eins og sjá má hér fyrir ofan og neðan þá voru margir mjög ósáttir með framgöngu Houston Texans.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×