Yfir 450 stafrænir fletir
Frá 1. janúar hefur verið svokallað Auglýsingahlé á yfir 450 stafrænum flötum Billboard víða um höfuðborgarsvæðið en sýningunni lýkur í kvöld og hefur eflaust vakið forvitni margra.
Í haust efndi Billboard í samstarfi við Y gallery og Listasafn Reykjavíkur til opinnar samkeppni um myndlistarverk í almenningsrými. Sigurður Ámundason var valinn úr hópi yfir 40 umsækjenda og var þessi tími því helgaður sýningu á nýju verki eftir hann.
Er þetta í annað sinn sem Auglýsingahlé fer fram á stafrænum flötum Billboard, en í fyrra var það Hrafnkell Sigurðsson sem bar sigur úr býtum.
Lýsa upp skammdegið og auka aðgengi á list
„Reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk Sigurðar dag hvern og er verkefnið frábær vettvangur fyrir myndlist í almenningsrými. Því er ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa borgarbúum tækifæri á að njóta listar um alla borgina,“ segir í fréttatilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur.
Stefnt er að því að verkið verði áfram sýnilegt í almenningsrými í borginni að loknu Auglýsingahléi Billboard.
Óræðni og efi
Á Facebook viðburðinum Auglýsingahlé 2023: Sigurður Ámundason segir að Sigurður lýsi verkinu Rétthermi á þennan hátt:
„Póst-strúktúralismi, óræðni og efi eru undirstöður verkanna.
Merkingarlaus vörumerki sem túlka ekkert en líta stórt á sig, bera númer og íslenska stafi í handahófskenndri röð.
Tákn sem tákna tákn, sem snúast um sjálf sig, leiðarvísar sem í raun leiða ekki neitt.“