„Bingo Drinkery er casual hverfisbar með íslenskt handverksöl og kokteila í fáranlega kósy stofu sem minnir helst á stofuna hennar ömmu,“ segir Jakob í samtali við Vísi.
„Staðurinn er skreyttur nánast einungis með gömlum munum sem við fundum annaðhvort í góða hirðinum eða falið í kjallaranum hjá ömmum okkar og öfum. Það gerir það að verkum að staðurinn verðum mjög hlýlegur og virkilega þæginlegur til að sitja á og sötra á ísköldum drykk,” segir hann um stemninguna.

Á staðnum er jafn mikil áhersla lögð á bjóra og kokteila. Hugmyndin var að opna stað þar sem þessir tveir heimar fá að koma saman.
„Markmiðið er síðan alltaf að hafa einhverja bjórkokteila í boði eins og til dæmis drykkurinn Espresso Brewtini þar sem við notum íslenskan stout bjór til að krydda aðeins upp á hinn sígilda Espresso Martini. Staðurinn verður opinn alla daga vikunnar frá og með desember en þangað til verður lokað á mánudögum og þriðjudögum.“
Staðurinn er staðsettur á Skólavörðustíg 8 og gengið inn að aftan hjá bílastæðunum.
„Á Bingo verðum við alltaf með allavega átta kokteila á seðli og fjóra bjóra á krana sem breytast reglulega. Ásamt því erum við með heilan helling af skemmtilegum íslenskum bjórum í dósum og allskonar tilraunastarfsemi í kokteilunum fyrir þá sem vilja smakka eitthvað nýtt og framandi.”