Erlent

Katrín aldrei í sam­skiptum við Gretu Thun­berg

Kjartan Kjartansson skrifar
Björk Guðmundsdóttir segir að hún, Katrín Jakobsdóttir og Greta Thunberg hafi ætlað sér að vinna saman, en Katrín hafi bakkað út. Katrín hafnar því í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi.
Björk Guðmundsdóttir segir að hún, Katrín Jakobsdóttir og Greta Thunberg hafi ætlað sér að vinna saman, en Katrín hafi bakkað út. Katrín hafnar því í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi. Samsett

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf Björk Guðmundsdóttur, söngkonu, aldrei fyrirheit um að gefa út formlega yfirlýsingu um neyðarástand í loftslagsmálum, þvert á fullyrðingar Bjarkar. Þá var forsætisráðherra aldrei í samskiptum við Gretu Thunberg sem Björk sagði að hefði verið með í ráðum.

Björk sakaði Katrínu um að hafa svikið samkomulag sem hún hafi gert við þær Thunberg um að Katrín lýsti yfir neyðarástandi í loftslagsmálum árið 2019 í viðtali við breska blaðið The Guardian í ágúst. Sakaði söngkonan Katrínu um að hafa ekkert gert fyrir umhverfið.

Í svari við skriflegri fyrirspurn á Alþingi staðfestir forsætisráðherra að hún hefði fengið smáskilaboð í síma sinn frá Björk í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 23. september árið 2019. Þær hafi ræðst við í síma í framhaldi af því. Björk hafi síðan sent Katrínu frekari smáskilaboð dagana fyrir ráðstefnuna en ráðherrann hafi aðeins svarað einu sinni. 

Í samskiptunum hafi komið fram að Björk teldi mikilvægt að forsætisráðherra lýsti í ræðu á ráðstefnunni yfir neyðarástandi í loftslagsmálum af hálfu Íslands og Norðurlanda. Katrín hafi sagst ætla að ræða málið við samráðherra sína en hún hafi ekki gefið nein fyrirheit um formlega yfirlýsingu.

„Í öllum tilfellum voru þessi samskipti við Björk Guðmundsdóttur og var forsætisráðherra aldrei í samskiptum við Gretu Thunberg,“ segir í svarinu við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Vildu frekar láta verkin tala

Katrín sagði í ræðunni á ráðstefnunni að enginn velktist í vafa um það lengur að heimurinn stæði frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum. Ríkisstjórnin hafi þó komist að þeirri niðurstöðu að lýsa slíku ástandi ekki yfir.

„Eftir umræðu á vettvangi ríkisstjórnar um loftslagsmál var það niðurstaðan, eftir pólitískt samráð, að betur færi á því að láta verkin tala og leggja áherslu á að ná árangri með raunhæfum og nauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum en að nálgast viðfangsefnið með yfirlýsingu af þessu tagi sem væri táknræn í eðli sínu og hefði ekki sjálfkrafa áhrif á aðgerðir gegn loftslagsvánni,“ segir í svari Katrínar.

Málið hafið verið rætt í óformlegum samtölum norrænna forsætisráðherra en loftslagsmál hafi verið aðalefni fundar þeirra á Íslandi í ágúst 2019. Töluverð umræða hafi verið allt það ár um gagnsemi slíkra yfirlýsinga alls staðar á Norðurlöndunum.

Hvatti þær ekki til að hætta við blaðamannafund

Jóhann Páll spurði Katrínu einnig hvort að hún hefði hvatt Björk og Thunberg til þess að hætta við að halda blaðamannafund þar sem krafist yrði yfirlýsingar um neyðarástand og vísaði hann til ummæla sem Björk lét falla í viðtali á Rás 1.

Katrín staðfestir í svari sínu að fram hafi komið í samskiptum þeirrar Bjarkar og til stæði að skora opinberlega á forsætisráðherra Norðurlanda að lýsa yfir neyðarástandi.

„Forsætisráðherra hvatti ekki til þess að hætt yrði við slíkt en upplýsti um að þessi mál hefðu verið og væru til umræðu við ríkisstjórnarborðið,“ segir í svarinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×