Menning

Natasha S. hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Dagur N. Eggertsson borgarstjóri veitir Natöshu S. verðlaunin í Höfða.
Dagur N. Eggertsson borgarstjóri veitir Natöshu S. verðlaunin í Höfða. vísir/vilhelm

Rithöfundurinn Natasha S. hlaut í dag bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið Máltaka á stríðstímum sem kemur í verslanir í dag. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða fyrir stundu.

„Það er ánægjulegt að ljóðskáld af erlendum uppruna sé að hljóta verðlaunin í fyrsta sinn. Í ljóðum sínum segir Natasha S. á áhrifamikinn hátt frásögn manneskju sem fylgist úr fjarlægð með stríðsrekstri í heimalandi sínu Rússlandi gegn nágrannaríkinu Úkraínu,“ segir Dagur um verkið. 

„Átakanleg frásögn sem um leið dregur fram sláandi andstæður,“ 

bætir hann við. 

Natasha S. flutti til Íslands frá Rússlandi árið 2012. Hún er menntuð í blaðamennsku og hefur skrifað greinar í lausamennsku um nýja heimaland sitt. Árið 2016 útskrifaðist hún frá Háskóla Íslands með BA-gráðu í íslensku sem annað mál og með sænsku sem aukagrein. 

Natasha S. hefur þýtt íslensk skáldverk á rússnesku, nú síðast Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Hún ritstýrði safnriti ljóða skálda af erlendum uppruna, sem nefnist Pólífónía af erlendum uppruna, og var auk þess einn höfunda þess. Þá er hún annar tveggja ritstjóra að greinarsafni sem Bókmenntaborgin í Reykjavík gefur út á næsta ári. Máltaka á stríðstímum er fyrsta ljóðabók Natöshu S.

Djúppersónulegt verk 

Í umsögn dómnefndar, sem var skipuð þeim Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur, Hauki Ingvarssyni og Eyþóri Árnasyni segir að Máltaka á stríðstímum sé áhrifamikið verk, brýnt og einstakt í sinni röð. 

„Það er frásögn manneskju sem fylgist með stríði í heimalandi sínu úr fjarlægð. Hennar eigin þjóð - Rússar - hervæðist og ræðst inn í Úkraínu. Andstaða höfundar við stríðsreksturinn vekur margslungnar tilfinningar og spurningar sem glímt er við í bókinni. Þrátt fyrir átakanleg efnistök einkennist framsetning af lipurð og djúphygli,“ segir enn fremur í umsögn.

Mannskilningur Natöshu er sagður þvert yfir þjóðerni, búsetu, reynslu og bakgrunn. Þá sé verkið djúppersónulegt þrátt fyrir að inntak þess séu umfangsmiklar hörmungar á alþjóðavísu enda er ástarsögu, minningum og endurliti fléttað saman við af listfengi.


Tengdar fréttir

Jón Hjartar­son hlaut Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti í dag Jóni Hjartarsyni, leikara og skáldi, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í við hátíðlega athöfn í Höfða í Reykjavík. Jón hlaut verðlaunin fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar, en bókin kom út í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×