Menning

Eyja­stemmning á næstu Menningar­nótt í Reykja­vík

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Heimaey þar sem eldgos hófst árið 1973.
Frá Heimaey þar sem eldgos hófst árið 1973. Vísir/Vilhelm

Vestmannaeyjabær verður heiðursgestur Menningarnætur í Reykjavík 2023 í tilefni af fimmtíu ára goslokaafmæli og langvarandi vinatengslum bæjarfélaganna.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi sent boðið á Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, í gær.

Haft er eftir Írisi að það sé mikill heiður að fá að vera heiðursgestur Menningarnætur og þakkaði hún fyrir boðið. „ Gosið á Heimaey hafði mikil áhrif á öllu landinu. Mikilvægt er að minnast gossins og áhrifanna sem það hafði. Að minnast þessara 50 ára tímamóta á Menningarnótt er afskaplega vel til fundið. Við munum kynna Eyjarnar og hina einu sönnu Eyjastemmingu,” segir Íris.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.Vísir/Bjarni

Í tilkynningunni segir að um árabil hafi tíðkast að bjóða völdum sveitarfélögum eða félagasamtökum að vera heiðursgestur á Menningarnótt. 

„Heiðursgestir Menningarnætur í gegnum árin hafa meðal annars verið Ísafjörður, Akranes, Þórshöfn í Færeyjum, Blindrafélagið og nú síðast stuðningssamtökin Support for Ukraine Iceland.

Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar en hátíðin er alltaf haldin fyrsta laugardag eftir 18. ágúst en þann dag árið 1786 fékk Reykjavíkurborg kaupstaðarréttindi. Menningarnótt var haldin í fyrsta sinn árið 1996 og hefur frá upphafi skipað mikilvægan sess í viðburðahaldi í borginni þar sem listafólk, íbúar og rekstraraðilar fá tækifæri til að bjóða til veislu í miðborginni,“ segir í tilkynningunni. 

Gleðiefni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram tillöguna um að bjóða Vestmannaeyjabæ að vera heiðursgestur Menningarnætur árið 2023 og var tillagan tekin fyrir í borgarráði í gær. 

Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum lagði fram svohljóðandi bókun:

„Mikið gleðiefni er að geta boðið Vestmannaeyingum sem heiðursgestum á Menningarnótt. Þetta er gert í tilefni af 50 ára goslokaafmæli en á þeim tíma sýndu Reykvíkingar að það er hægt að taka á móti þúsundum fólks án heimilis á einni nóttu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.