Innlent

Flótta­fólki komið fyrir í Hafnar­firði án sam­ráðs

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar segir innviði bæjarfélagsins vera komnir að þolmörkum. 
Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar segir innviði bæjarfélagsins vera komnir að þolmörkum.  Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar segir bæinn ekki getað tekið við fleira flóttafólki í bili. Innviðir sveitarfélagsins séu fyrir allnokkru komnir að þolmörkum, þá sérstaklega hvað varðar skólaþjónustu og stuðning til barna varðar.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var samhljóma á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag. Alls eru hátt í 200 flóttabörn í grunn- og leikskólum bæjarfélagsins.

Bæjarstjórn hefur ítrekar reynt að koma því á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að ekki sé hægt að taka við fleirum flóttamönnum í Hafnarfirði í bili.

„Engu að síður hefur flóttafólki án samnings við bæjarfélagið fjölgað um nokkur hundruð á síðustu vikum. Fólkið er hingað komið og búsett í úrræðum sem Útlendingastofnun hefur komið upp í bæjarfélaginu algjörlega án samráðs við bæjaryfirvöld,“ segir í ályktuninni.

Bæjarstjórn segir viðræður þeirra við Útlendingastofnun og ráðuneytið hafi endurtekið ekki skilað árangri og því verður ábyrgðinni á veitingu þjónustunnar hér með vísað til ráðuneytisins.

„Hafnarfjarðarbær skorast alls ekki undan þátttöku í verkefninu og vill sinna því vel áfram með hagsmuni flóttafólks og hælisleitenda að leiðarljósi. Ríkið verður hins vegar að standa undir sinni ábyrgð í málinu og koma til móts við bæjarfélögin sem hafa tekið að sér þessi verkefni,“ segir í ályktuninni.

Bæjarfélagið ætlar að einbeita sér að því að gæta hagsmuna þeirra barna sem nú þegar eru í leik- og grunnskólakerfið bæjarins, líkt og lög kveða um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×