Innlent

Ójöfnuður hafi aukist í fyrra

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Guðrúnartún 1 þar sem skrifstofa ASÍ er til húsa auk annarra félaga.
Guðrúnartún 1 þar sem skrifstofa ASÍ er til húsa auk annarra félaga. VÍSIR/VILHELM

Á síðasta ári jókst ójöfnuður í íslensku hagkerfi samkvæmt mánaðaryfirlit ASÍ. Þar kemur fram að stærsta breytingin á tekjum íslenskra heimila í fyrra hafi verið aukning fjármagnstekna en sú aukning hafi nær einungis verið hjá tekjuhæstu tíu prósentum heimilanna.

Í mánaðaryfirlitinu kemur fram að hjá tekjuhæstu tíu prósentum íslenskra heimila hækkuðu ráðstöfunartekjur að meðaltali um rúmlega tíu prósent. Þá hækkun megi einna helst rekja til hækkunar fjármagnstekna en tekjuhækkun í öðrum tekjutíundum var mun minni.

Hér fyrir neðan má sjá meðalbreytingu einstakra tekjuhópa þar sem hæsta tekjutíundin bætti miklu við sig.

Tekjuskipting ívið jafnari á Íslandi en á Norðurlöndum

Í mánaðaryfirlitinu kemur fram að í alþjóðlegum samanburði sé tekjuskipting heldur jöfn á Íslandi og sömuleiðis einna jöfnust meðal OECD ríkja. 

Þá segir einnig í yfirlitinu að tekjudreifing á Ísland sé jafnari en á Norðurlöndunum eða á pari við þau þrátt fyrir að launadreifing á íslenskum vinnumarkaði sé heldur ójafnari en á hinum Norðurlöndunum. 

Þar vegur á móti að atvinnuþátttaka er hærri hér á landi en eftir því sem fleiri eru á vinnumarkaði þeim mun jafnari er tekjuskipting almennt.

Ójöfnuður aukist undanfarna tvo áratugi

Til að meta umfang tekjujöfnuðar beitir ASÍ Gini-mælikvarðanum sem dregur saman í eina tölu umfang ójafnaðar í tekjuskiptingu þjóðar. Sá stuðull nær frá núll upp í einn og því hærri sem talan er því meiri er ójöfnuðurinn.

Hér fyrir neðan má sjá graf sem sýnir þróun Gini-stuðulsins á Íslandi undanfarna tvo áratugi.

Þar sést hvernig tekjuskipting varð ójafnari frá miðbiki tíunda áratugarins og svo hvernig stuðullinn hækkaði hratt á árunum fyrir fjármálahrun. Eftir hrun lækkaði stuðullinn svo aftur nokkuð hratt. Á árunum 2013 til 2020 reis stuðullinn síðan og hneig aftur og loks sést síðan hvernig ójöfnuður jókst aftur í fyrra.

Skoði maður grafið í heild sinni sést einnig hvernig ójöfnuður er orðinn nokkuð meiri en hann var fyrir tveimur áratugum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×